Nasu Abdulaziz er eins og hver annar ungur maður í Nígeríu. Hann er mikill fótboltaáhugamaður og hefur gaman af hjólreiðum. En aðstæður hans eru einnig óvenjulegar þar sem hann berst fyrir rétti sínum til heimilis. Hann er einn þeirra sem er á bréfalista Amnesty International í ár.
„Nasu er 23 ára og hefði átt að vera að njóta lífsins en þess í stað komu vopnaðir menn með jarðýtur fyrirvaralaust inn í hverfið hans, Otodo Gbame, í stórborginni Lagos í Nígeríu. Að tilskipun stjórnvalda voru heimili hins gamalgróna samfélags þar eyðilögð, hús voru brennd og rifin, byssuskotum hleypt af og lífsviðurværi íbúanna lagt í rúst.
Árið 2017, kvöldið áður en síðustu brottflutningarnir áttu sér stað, skutu ofbeldismenn Nasu í handlegginn. Daginn eftir réðst sérsveit Lagos enn á ný inn í samfélagið, hleypti af byssuskotum og beitti táragasi. Í ringulreiðinni flúðu íbúarnir skelfingu lostnir og sumir stukku út í nærliggjandi lón og drukknuðu. Talið er að níu manns hafi látið lífið og 15 er enn saknað.
Á endanum urðu 30 þúsund manns heimilislausir og neyddust til að búa í bátum, undir brúm eða hjá vinum og ættingjum. Nasu missti heimili sitt en hann heldur enn í vonina. Hann hefur gengið til liðs við Bandalag fátækrahverfa og óformlegra byggða í Nígeríu, fjöldahreyfingu fólks sem leggur allt í sölurnar til að tryggja réttinn til heimilis,“ segir á vef Íslandsdeildar Amnesty International.
Á hverju ári í kringum alþjóðlega mannréttindadaginn 10. desember safnast milljónir bréfa, korta, SMS-ákalla og undirskrifta í gegnum alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty International þar sem skorað er á stjórnvöld að gera umbætur í mannréttindamálum.
„Þessi einstaki samstöðumáttur skilar raunverulegum breytingum í lífi þeirra sem minnst mega sín. Á hverju ári eru samviskufangar leystir úr haldi, fangar hljóta mannúðlegri meðferð, þolendur pyndinga sjá réttlætinu fullnægt, fangar á dauðadeild eru náðaðir eða ómannúðlegri löggjöf breytt,“ segir í tilkynningu frá Amnesty á Íslandi.