Trump virðist ekki ætla að taka til varna

Donald Trump Bandaríkjaforseti virðist ekki ætla að verjast demókrötunum í …
Donald Trump Bandaríkjaforseti virðist ekki ætla að verjast demókrötunum í fulltrúadeildinni, heldur einbeita sér að málsvörn sinni í öldungadeildinni. AFP

Lögfræðiteymi Donald Trumps Bandaríkjaforseta sendi í gær harðort bréf til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, þar sem gefið er í skyn að vörnum verði ekki haldið uppi fyrir hönd forsetans á vettvangi fulltrúadeildarinnar, án þess að það sé sagt berum orðum. Rannsóknin á hendur forsetanum er í bréfinu sögð algjörlega tilhæfulaus.

Demókratar hafa gefið það út að þeir ætli að leggja fram ákæru á hendur Trump til embættismissis og af bréfi Pat A. Cipollone aðallögmanns Hvíta hússins að dæma virðist sem forsetinn vilji að demókratar eyði sem minnstum tíma í að ræða málið áður en ákæran verði samþykkt, sem ætti að geta orðið fyrir 20. desember, samkvæmt frétt New York Times.

„Demókratar í fulltrúadeildinni hafa eytt nægum tíma Bandaríkjanna í þennan skrípaleik,“ sagði Cipollone í bréfi sínu til Jerrod Nadler, formanns dómsmálanefndar fulltrúadeildarinnar. „Þú ættir að ljúka þessari rannsókn núna og ekki eyða meiri tíma í frekari skýrslutökur,“ bætti Cipollone við.

Í bréfinu er vitnað til orða sem Trump lét nýlega falla: „Ef þið ætlið að ákæra mig til embættismissis, geri það núna, hratt, svo við getum fengið sanngjörn réttarhöld í öldungadeildinni og svo landið geti snúið sér aftur að því sem skiptir máli (e. get back to business).“

Í frétt New York Times segir að þessi viðbrögð séu ólík því sem þeir Richard Nixon og Bill Clinton fyrrverandi Bandaríkjaforsetar hafi gert er þeir voru í sömu stöðu og Trump. Er þeir stóðu frammi fyrir ásökunum fulltrúadeildarinnar um embættisafglöp tóku lögfræðingar þeirra fullan þátt í ferlinu og héldu uppi umfangsmiklum vörnum á vettvangi dómsmálanefndarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert