Gólfið er rykugt, veggirnir skítugir og húsgögnin hrörleg en undanfarnar viku hefur þessi litla íbúð í Harare gegnt hlutverki fæðingarstofu þar sem hundruð barna hafa fæðst.
Eigandinn, Esther Gwena, sem er 69 ára gömul, segir að hún hafi aðstoðað við fæðingu 250 barna á sama tíma og heilbrigðiskerfi Simbabve riðar til falls. Er henni líkt við Florence Nightingale, hjúkrunarfræðing sem markaði upphaf hjúkrunar nútímans.
Hundruð unglækna á ríkissjúkrahúsum hafa verið í verkfalli í þrjá mánuði en þeir krefjast launahækkana. Laun þeirra eru innan við 200 Bandaríkjadalir, 24 þúsund krónur, á mánuði en eru of lág til framfærslu í landi þar sem verðbólgan mælist nú 500%.
Hjúkrunarfræðingar vinna nú aðeins tvo daga í viku og þeir sem ekki geta greitt einkasjúkrahúsum, sem eru meirihluti þeirra 14 milljóna sem búa í Simbabve, þjást heima eða sækja sér aðstoð hjá fólki eins og Gwena.
Samtök lækna sendu frá sér yfirlýsingu nýverið þar sem þeir lýstu ríkissjúkrahúsunum sem dauðagildrum og vöruðu við hægfara þjóðarmorði.
Gwena, sem er ekkja og er í Apostolic Faith-söfnuðinum, er sjálfmenntuð ljósmóðir. Þegar ljóst var að verkföllunum væri ekki að ljúka ákvað hún að grípa til sinna ráða.
„Það kom maður til mín og sagði mér að tvær konur væru að fæða á læknastofu hér skammt frá en þar sem hjúkrunarfræðingar væru í verkfalli væri ekki neina aðstoð að fá,“ segir Gwena.
Hún flýtti sér á staðinn en þar var önnur konan búin að fæða andvana barn. „Ég fór með hina hingað heim til mín þar sem ég aðstoðaði hana. Barnið lifði af. Þá vissi ég að ég yrði að gera eitthvað,“ segir hún.
Fréttin var fljót að berast — að hún aðstoðaði við fæðingar án endurgjalds og hefur Gwena vart undan að veita konum aðstoð.
Ríkissjónvarpsstöðin ZBC lýsir henni sem nútímaútgáfu af Florence Nightingale í Simbabve og forsetafrú landsins, Auxillia Mnangagwa, heimsótti Gwena nýverið og færði henni mat, sótthreinsiefni og teppi. Útfararstofa í nágrenninu kom með vatnstank og setti upp tjald fyrir utan sem nú þjónar sem biðstofa fyrir konur áður en þær fæða.
Ríkisstjórnin hefur beðið Gwena að hætta að taka á móti börnum þar sem búið er að opna fæðingarstofuna í hverfinu að nýju. Hún er hinsvegar ekki hætt enda margir sem eru þakklátir fyrir að fá þessa aðstoð án endurgjalds.
Læknar hafa aftur á móti áhyggjur af sýkingarhættu sem geti breiðst út. En til þess verði að gera bragarbót á þeirri aðstöðu sem ríkið hefur yfir að ráða. Því þar er lyfjaskortur og lækningartæki löngu úr sér gengin. Ríkið hefur þess utan rekið 448 unglækna fyrir að fara í verkfall. Vegna þess hafa starfandi læknar lagt niður störf til að mótmæla brottrekstrinum.
Læknir sem AFP-fréttastofan talaði við segir að engin heilbrigðisþjónusta á vegum hins opinbera sé starfandi í Simbabve í augnablikinu. Kyrrstaða ríki og á sama tíma deyi sjúklingar. Ekkert sé í lagi, jafnvel ekki einfaldasti búnaður. Hann nefnir að þegar óskað er eftir nýjum hönskum til að nota við aðgerðir fái læknirinn gamla og of stóra hanska.
Sérstakur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna á sviði fæðuöryggis, Hilal Elver, tekur undir þetta og segir að búnaðurinn sem notaður er sé ónýtur og geri meira ógagn en gagn.
Í borginni Bulawayo er verið að reyna að bjarga málum með hópfjármögnun erlendis þar sem brottfluttir Simbabve-búar eru að senda peninga til að nota í heilbrigðisþjónustu fyrir viðkvæmasta hópinn.
Þar á meðal til Citizwean-læknamiðstöðvarinnar sem hóf starfsemi í nóvember. Á fyrstu fimm dögunum komu hundruð sjúklinga til að fá ókeypis ráðgjöf og lyf. „Ef við förum á sjúkrahús í dag þá er ástandið þannig að þar eru engir læknar. Við fréttum að það væru læknar starfandi hér,“ segir Elina Dzingire, 63 ára, við fréttamann AFP þegar hann heimsótti læknamiðstöðina.