Ný kosningaauglýsing breska Íhaldsflokksins hefur vakið mikla athygli, en þar endurleikur Boris Johnson forsætisráðherra frægt atriði úr jólamyndinni Love Actually frá 2003.
Í kvikmyndinni sjálfri snýst atriðið um mann, Mark að nafni, sem kemur skömmu fyrir jól og tjáir dulda ást sína á Juliet, eiginkonu besta vinar síns, með rómantískum skiltum „af því að um jólin segir maður sannleikann“.
Í auglýsingu Íhaldsflokksins er þetta atriðið endurtekið, en í stað þess að Boris sé mættur til þess að tjá ást sína á konunni sem kemur til dyra er hann í atkvæðaleit. Boðskapurinn er sá að ef Íhaldsmenn fái ekki meirihluta muni ekkert breytast í breskum stjórnmálum, áfram verði rifist um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu næstu árin.
Auglýsingin er fagmannlega gerð, þykir nokkuð sniðug og hefur sem áður segir vakið mikla athygli í Bretlandi frá því hún birtist í gærkvöldi. Hugh Grant, sem einmitt leikur forsætisráðherra Bretlands í einu aðalhlutverkanna í Love Actually, tjáði sig um málið í útvarpsþætti á BBC í morgun.
Grant, sem er andvígur útgöngu Bretlands úr ESB og hvetur fólk til þess að kjósa taktískt gegn frambjóðendum Íhaldsflokksins í kosningunum á fimmtudaginn, segist hafa tekið eftir því að eitt þeirra skilta úr upphaflegu myndinni sem Boris hafi ekki haldið á lofti í auglýsingunni hafi verið það um að sannleikann ætti að segja um jólin.
„Spunameistarar Íhaldsflokksins hafa kannski hugsað sem svo að það væri spjald sem liti ekki sérlega vel út í höndum Boris Johnsons,“ sagði Grant.
"One of the cards... Boris Johnson didn't hold up was the one saying "Because at Christmas you tell the truth"
— BBC Radio 4 Today (@BBCr4today) December 10, 2019
Actor Hugh Grant @HackedOffHugh, who wants people to vote tactically against Brexit, gives his view of the PM's version of the famous Love Actually cards scene pic.twitter.com/HyU9Uk47Sd