Boris Johnson endurleikur atriði úr Love Actually

„Hinn gaurinn gæti unnið,“ segir á einu skiltanna sem Johnson …
„Hinn gaurinn gæti unnið,“ segir á einu skiltanna sem Johnson sýnir í auglýsingunni og vísar hann þar til Jeremy Corbyn leiðtoga Verkamannaflokksins. Skjáskot úr auglýsingu Íhaldsflokksins

Ný kosningaauglýsing breska Íhaldsflokksins hefur vakið mikla athygli, en þar endurleikur Boris Johnson forsætisráðherra frægt atriði úr jólamyndinni Love Actually frá 2003.

Í kvikmyndinni sjálfri snýst atriðið um mann, Mark að nafni, sem kemur skömmu fyrir jól og tjáir dulda ást sína á Juliet, eiginkonu besta vinar síns, með rómantískum skiltum „af því að um jólin segir maður sannleikann“.


Í auglýsingu Íhaldsflokksins er þetta atriðið endurtekið, en í stað þess að Boris sé mættur til þess að tjá ást sína á konunni sem kemur til dyra er hann í atkvæðaleit. Boðskapurinn er sá að ef Íhaldsmenn fái ekki meirihluta muni ekkert breytast í breskum stjórnmálum, áfram verði rifist um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu næstu árin.


Auglýsingin er fagmannlega gerð, þykir nokkuð sniðug og hefur sem áður segir vakið mikla athygli í Bretlandi frá því hún birtist í gærkvöldi. Hugh Grant, sem einmitt leikur forsætisráðherra Bretlands í einu aðalhlutverkanna í Love Actually, tjáði sig um málið í útvarpsþætti á BBC í morgun.

Grant, sem er andvígur útgöngu Bretlands úr ESB og hvetur fólk til þess að kjósa taktískt gegn frambjóðendum Íhaldsflokksins í kosningunum á fimmtudaginn, segist hafa tekið eftir því að eitt þeirra skilta úr upphaflegu myndinni sem Boris hafi ekki haldið á lofti í auglýsingunni hafi verið það um að sannleikann ætti að segja um jólin.

„Spunameistarar Íhaldsflokksins hafa kannski hugsað sem svo að það væri spjald sem liti ekki sérlega vel út í höndum Boris Johnsons,“ sagði Grant.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert