Konum í röðum þingmanna í neðri deild breska þingsins fjölgaði mjög í kosningunum sem fram fóru í gær og eru konur nú um rúmur þriðjungur þingmanna. Þannig eiga nú 220 konur sæti í neðri deildinni en voru 208 á síðasta þingi.
Mest fjölgaði í röðum Íhaldsflokksins. Eftir kosningarnar 2017 var fjöldi kvenna í þingflokki flokksins 67 en er nú 87. Hins vegar eru konur í þingflokki Verkamannaflokksins 104 sem er rúmur helmingur þingflokksins eftir að flokkurinn tapaði tugum þingsæta í kosningunum í gær. Hann hefur nú aðeins 203 þingmenn.
Hæsta hlutfall kvenna er í þingflokki Frjálslyndra demókrata eða rúmlega 2/3. Sjö þingmenn af ellefu eru þannig konur.
Fjöldi kvenna í framboði hefur einnig aldrei verið meiri samkvæmt frétt dagblaðsins Daily Telegraph. Þannig voru 1.124 konur í framboði en voru 973 árið 2017. Flestar konur voru í framboði fyrir Verkamannaflokkinn eða 335, næstflestar fyrir Íhaldsflokkinn, 192, og þá komu Frjálslyndir demókratar með 188.