Uppreisnarþingmenn náðu ekki kjöri

Breska þinghúsið.
Breska þinghúsið. AFP

Þeir þingmenn, sem gengu úr Verkamannaflokknum og Íhaldsflokknum fyrr á þessu ári vegna andstöðu við stefnu flokkanna varðandi fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, náðu ekki endurkjöri í þingkosningunum í gær.

Þeir fyrrverandi þingmenn Verkamannaflokksins sem um ræðir eru Chuka Umunna, Luciana Berger og Angela Smith, sem gengu til liðs við Frjálslynda demókrata, Chris Leslie og Michael Gapes, sem buðu sig fram í sérframboði og Gavin Shuker sem bauð fram sjálfstætt.

Fyrrverandi þingmenn Íhaldsflokksins sem um er að ræða eru Sarah Wollaston, Sam Gimya, Phillip Lee og Antoinette Sandbach, sem gengu til liðs við Frjálsynda demókrata, og Anna Soubrey, sem bauð sig fram fyrir sérframboð.

Þessir fyrrverandi þingmenn eiga það sameiginlegt að vilja að Bretland verði áfram í Evrópusambandinu.

Þá buðu tveir fyrrverandi þingmenn Íhaldsflokksins, sem vikið var úr þingflokki Íhaldsflokksins í haust vegna andstöðu þeirra við þá stefnu flokksins að halda opnum möguleikanum á að ganga úr Evrópusambandinu án útgöngusamnings, fram sjálfstætt en náðu ekki kjöri. Þeir David Gauke og Dominic Grieve.

Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert