100 milljörðum evra verður varið í fjárfestingar til að hjálpa ríkjum Evrópusambandsins, sem reiða sig á óvistvæna orkugjafa, að koma sér upp endurnýjanlegri orkugjöfum. Þetta er meðal þess sem lagt er til í Grænum samfélagssáttmála Evrópusambandsins (European Green New Deal) sem Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kynnti við góðar undirtektir á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP25, sem fram fer í Madríd.
Græni samfélagssáttmálinn var meðal loforða hennar er hún sóttist eftir stuðningi Evrópuþingmanna til embættisins fyrr á árinu. Meðal þess sem kveðið er á um í sáttmálanum er að losun gróðurhúsalofttegunda ríkja Evrópusambandsins verði 50% minni árið 2030 en var árið 1990 — í stað núverandi viðmiðs sem er 40% samdráttur — og að sambandið verði kolefnishlutlaust 2050. Verði þessi viðmið fest í lög sambandsins.
Sáttmálanum hefur verið lýst sem mikilvægustu aðgerðaáætlun heillar kynslóðar, en von der Leyen hefur sjálf sagt hann sambærilegan tunglferðaráætluninni; einstaklega metnaðarfullri áætlun sem þótti óhugsandi á sínum tíma.
Innleiðing sáttmálans er þó háð samþykki leiðtogaráðs ESB, sem í sitja leiðtogar ríkisstjórna aðildarríkja, og ljóst að samþykki sumra þeirra verður dýru verði keypt. Tékknesk, ungversk og pólsk stjórnvöld hafa lengi lýst sig andvíg áformum sambandsins um kolefnishlutleysi árið 2050 og beitt neitunarvaldi sínu á tillögur þess efnis. Eru þau enda meðal þeirra ríkja sem háðust eru jarðefnaeldsneyti.
Það er af þeim sökum sem gert er ráð fyrir að kostnaður við orkuskiptin verði svo hár. Freista á þessara ríkja með háum framlögum frá Evrópska fjárfestingarbankanum sem eyrnamerkt verða verkefnum er tengjast orkuskiptunum.
Eins og jafnan er þykir ýmsum ekki nógu langt gengið. Ýmsir þingmenn græningja á Evrópuþinginu hafa gagnrýnt tillögurnar fyrir að ganga of skammt, og því sjónarmiði deila grænfriðungar, sem söfnuðust saman við byggingu leiðtogaráðs Evrópusambandsins í Brussel í morgun, þar sem leiðtogafundur sambandsins fer fram, og veifuðu fána sem á stóð „Loftslagsneyðarástand“.