Lítil samstaða á loftslagsráðstefnu

Mótmælendur komu saman utan við ráðstefnubygginguna í Madríd í gær.
Mótmælendur komu saman utan við ráðstefnubygginguna í Madríd í gær. AFP

Lítill samhljómur virðist vera á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP25, sem fram fer í Madríd. Ráðstefnunni átti að ljúka í gær, en samningaviðræður sem stóðu í alla nótt virðast litlu hafa skilað og hefur AFP eftir ráðstefnugestum að lönd heims séu klofnari en nokkru sinni fyrr.

Erindrekar frá vestrænum þjóðum, þróunarlöndum og fátækustu ríkjum heims hafi allir gert athugasemdir við málamiðlunartillögu stjórnvalda í Síle, sem halda ráðstefnuna í Madríd, en hver á sínum forsendum.

„Það lítur út fyrir að við séum að færast fjær metnaðarfullum tillögum, þegar við ættum að taka risaskref í hina áttina,“ hefur AFP eftir Tinu Stege, loftslagserindreka Marshall-eyja, eins þeirra ríkja sem eru viðkvæmust fyrir áhrifum hamfarahlýnunar.

Ákall um að ríki heims setji sér sjálf metnaðarfyllri markmið um samdrátt í útblæstri nýtur helst stuðnings Evrópusambandsins, Kyrrahafseyja og margra fátækustu ríkja heims og hafa ráðamenn frá umræddum ríkum gagnrýnt önnur ríki, einkum Bandaríkin, fyrir að leggjast gegn samþykktum þess efnis.

„Bandaríkin hafa ekki komið hingað í góðri trú,“ segir Harjeet Singh frá samtökunum ActionAid. „Þau leggjast enn gegn öllum aðgerðum sem ætlað er að hjálpa fólki sem hefur orðið verst úti vegna loftslagsbreytinga.“

Að óbreyttu mun meðalhitastig jarðar hækka um rúmar þrjár gráður til ársins 2100, um tvöfalt það sem kveðið er á um í Parísarsamkomulaginu frá 2015.

Leiðtogar 26 af 27 ríkjum Evrópusambandsins samþykktu á fundi sínum í Brussel á fimmtudag innleiðingu svokallaðs Græns samfélagssáttmála, en þar er kveðið á um að útblástur gróðurhúsalofttegunda skuli hafa dregist saman um 50% árið 2030 frá árinu 1990, auk þess sem Evrópusambandið skuli vera kolefnishlutlaust árið 2050.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka