Rauð veðurviðvörun er í gildi fyrir nánast allt Suðvestur-Frakkland og eru 40 þúsund heimili án rafmagns. Einn er látinn í óveðrinu sem hefur geisað frá því á fimmtudag og eins er saknað.
Í Pyrénées-Atlantique-svæðinu í Baskahéraði hefur viðbúnaðarstigið verið lækkað í appelsínugult en þar lést sjötugur maður í gær þegar hann ók á tré sem hafði rifnað upp með rótum og fallið á veginn. Fimm eru slasaðir, þar af tveir alvarlega, eftir að tré féllu á bifreiðar þeirra.
Í Espeins í Lot-et-Garonne-héraði er manns á sjötugsaldri saknað eftir að flóðbylgja hrifsaði hann með sér þegar hann skrapp út að sækja póstinn sinn. Hans hefur verið leitað í allan dag án árangurs. Allt er á floti í héraðinu og er rauð viðvörun þar í gildi.
Flóð og aurskriður lokuðu leiðum að skíðasvæðunum í Gourette og Artouste og er víða skortur á drykkjarhæfu vatni. Bjarga þurfti 600 manns í Landes-sýslu vegna þess að ár í sýslunni hafa flætt yfir bakka sína.
Í Ölpunum er snjóflóðaviðvörun í gildi en heldur hefur dregið úr hættunni í dag þar sem veðrið er að skána. Einnig hefur viðbúnaðarstig verið lækkað á Korsíku en þar mældist vindhraðinn yfir 40 metrar á sekúndu í gær.