Skógareyðing í Amazon-skógi í Brasilíu á þessu ári er á við stærð Púertó Ríkó. Skógareyðingin hefur ekki verið jafn mikil í nóvembermánuði frá því að skráning hófst árið 2015, samkvæmt bráðabirgðatölum frá geimrannsóknastofnun Brasilíu (INPE) sem kynntar voru í gær. Guardian greinir frá þessu.
Amazon er stærsti regnskógur heims en eyðing hans nam samtals 563 ferkílómetrum í nóvember. Það er tvisvar sinnum meira en á sama tíma í fyrra. Frá janúar til nóvember á þessu ári hafa 8.934 ferkílómetrar af Amazon orðið skógareyðingu að bráð, það er 83% meira en á sama tímabili í fyrra.
Venjulega hægir á eyðingunni í nóvember og desember vegna regntímabils í Amazon en eyðingin er óvenju mikil þetta árið.
Vísindamenn og umhverfissinnar kenna Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, um að hafa hvatt bændur og skógarhöggsmenn til skógareyðingar. Bolsonaro kallaði eftir þróun svæðisins þar sem skógurinn er.