Corbyn biður stuðningsmenn afsökunar

Corbyn yfirgefur heimili sitt í norðurhluta London.
Corbyn yfirgefur heimili sitt í norðurhluta London. AFP

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hefur beðið stuðningsmenn flokksins afsökunar á slæmum ósigri í þingkosningunum fyrir helgi.

Íhalds­flokk­ur­inn vann stór­sig­ur í kosningunum. Flokk­ur­inn hlaut 365 þing­menn og hef­ur 80 þing­manna meiri­hluta, þann mesta sem flokk­ur­inn hef­ur haft frá þriðju kosn­ing­um Marga­ret Thatcher árið 1987. Að sama skapi hlaut Verka­manna­flokk­ur­inn sína verstu út­reið í ára­tugi.

Í aðsendum greinum sem Corbyn skrifaði í blöðin Sunday Mirror og Observer kveðst hann bera ábyrgð á því sem gerðist, að því er BBC greinir frá. 

„Ég ætla ekkert að tala í kringum hlutina. Úrslitin voru mikið högg fyrir alla sem þurfa svo nauðsynlega á alvörubreytingum að halda í okkar landi,“ skrifaði hann í Mirror. „Mér þykir leitt að við fengum ekki næg atkvæði og ég ber ábyrgð á því.“

Hann tók þó fram að hann væri stoltur af kosningaherferð flokksins og að í henni hefðu falist skilaboð vonar.

Corbyn bætti við að flokkurinn væri staðráðinn í því að endurheimta traustið sem hann hefur notið hjá kjósendum Verkamannaflokksins sem greiddu honum ekki atkvæði í þetta sinn.

Í Observer skrifaði hann að það væri „engin skjót lausn til að endurheimta traust margra kjósenda“.

Boris Johnson, leiðtogi Íhaldsflokksins, á fundi með stuðningsmönnum sínum í …
Boris Johnson, leiðtogi Íhaldsflokksins, á fundi með stuðningsmönnum sínum í gær. AFP

Líklegir eftirmenn nefndir til sögunnar

Reiknað er með því að Corbyn hætti formennsku sinni snemma á næsta ári. Þau Lisa Nandy og Jess Phillips eru talin líklegust til að taka við af honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka