Þingmaðurinn Emily Thornberry, sem orðið er við þátttöku í fyrirhuguðu leiðtogakjöri innan breska Verkamannaflokksins, hefur verið sökuð um að kalla kjósendur í norðurhluta Englands heimska samkvæmt frétt dagblaðsins Daily Telegraph.
Fram kemur í fréttinni að deilt sé harkalega innan Verkamannaflokksins um það hver beri ábyrgð á sögulega slæmu gengi flokksins í þingkosningunum sem fram fóru í Bretlandi á fimmtudaginn. Spjótin beinist að forystu Verkamannaflokksins og þá einkum Jeremy Corbyn, leiðtoga flokksins. Forystan hafi hins vegar vísað á aðra.
Þannig hafi forysta Verkamannaflokksins gagnrýnt breska ríkisútvarpið BBC fyrir að hafa hjálpað Íhaldsflokknum og leiðtoga hans, Boris Johnson, að sigra kosningarnar. Forystumenn innan Verkamannaflokksins hafi einnig haft á orði að gyðingar ættu sök á slæmu gengi flokksins. Nú bætist heimskir kjósendur við listann.
Thornberry, sem situr á þingi fyrir kjördæmi í norðurhluta London þar sem meirihluti kjósenda studdi áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu í landinu 2016, er sögð hafa sagt við annan þingmann, sem situr á þingi fyrir kjördæmi hvar meirihlutinn kaus með útgöngu úr sambandinu, að hún væri ánægð með að kjósendur hennar væru ekki eins heimskir og hans.
Caroline Flint, fyrrverandi þingmaður Verkamannaflokksins sem tapaði þingsæti sínu fyrir kjördæmið Don Valley í norðurhluta Englands til Íhaldsflokksins, greindi frá meintum ummælum Thornberrys. Thornberry hefur vísað því á bug að hafa látið þau falla. Haft er eftir Thornberry að hún íhugi að leita réttar síns gagnvart Flint.
Thornberry segist hafa gefið Flint frest til þess að draga ummæli sín til baka en Flint neitað því. Fyrir vikið neyddist hún til þess að leita til dómsmála vegna málsins.