Þjófar stálu skartgripum að andvirði 50 milljóna punda, eða því sem nemur rúmum átta milljörðum íslenskra króna, af Tamöru Ecclestone, fyrirsætu sem helst er þekkt fyrir að vera dóttir fyrrverandi kappakstursmannsins Bernie Ecclestone.
Þjófnaðurinn var framinn á heimili hennar í Kensington-hverfi í London og var Ecclestone nokkuð ósátt með hina óprúttnu aðila, samkvæmt frétt BBC.
Á meðal þess sem þjófarnir tóku voru hringar, eyrnalokkar og armband frá skartgripaframleiðandanum Cartier sem Ecclestone fékk í brúðkaupsgjöf. Armbandið eitt og sér kostaði 80.000 pund, eða rúmar 13 milljónir króna.
Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.
„Ég get því miður staðfest að það var ráðist inn á heimili Ecclestone. Við vinnum nú með lögreglu að lausn málsins,“ sagði talsmaður Ecclestone. „Tamara og fjölskylda hennar eru vel haldin en reið vegna atviksins.“
Það er þó varla hægt að segja að Ecclestone sé gjaldþrota vegna atviksins en faðir hennar er fjórði ríkasti maður Bretlands. Auðæfi hans eru metin á 4,2 milljarða dollara.
Tamara Ecclestone keypti heimili sitt árið 2011 og kostaði það þá 45 milljónir punda, eða því sem nemur rúmum sjö milljörðum íslenskra króna. Í húsinu eru 55 herbergi og hefur Ecclestone eytt milljónum punda í að gera það upp. Þar er meðal annars að finna kristalbaðker, einkanæturklúbb, keilusal, sundlaug, snyrtistofu, heilsulind fyrir hunda og bílalyftu.
Skartgripaþjófnaðurinn er ekki sá eini sem Ecclestone-fjölskyldan hefur lent í en árið 2016 var Aparecida Schunck, tengdamóður Bernie Ecclestone, rænt og kröfðust ræningjarnir lausnargjalds fyrir hana.