Ungir kusu Verkamannaflokkinn og þeir eldri Íhaldsflokkinn í nýafstöðnum þingkosningum í Bretlandi, samkvæmt niðurstöðum kosningarannsóknar sem breska fyrirtækið YouGov hefur framkvæmt á síðustu dögum.
Tæplega 42.000 manns svöruðu könnuninni og eins og sjá má hér að neðan var mikið kynslóðabil að merkja í svörum kjósenda. Um það bil helmingur kjósenda undir fertugu sagðist hafa kosið Verkamannaflokkinn, sem beið þrátt fyrir það afhroð í kosningunum á fimmtudag.
Þeir sem eldri eru kusu Íhaldsflokkinn og fer stuðningur við Íhaldsflokkinn stighækkandi eftir aldri, á meðan að hið þveröfuga á við um Verkamannaflokkinn. Þetta má glögglega sjá í grafinu hér að neðan.
Aldur hefur verið lykilskýringarbreyta í breskum stjórnmálum frá þjóðaratkvæðagreiðslunni um útgöngu Bretlands úr Evrópsambandinu árið 2016. Þá kaus meirihluti yngri kjósenda að vera áfram í ESB, en meirihluti þeirra sem eru eldri eru vildi yfirgefa sambandið. Í þingkosningunum árið 2017 var einnig mikið kynslóðabil, en það hefur raunar minnkað síðan þá þrátt fyrir að vera enn mjög afgerandi.
Á vef YouGov segir að skurðpunkturinn, sá aldur þar sem kjósandi verður líklegri til þess að kjósa Íhaldsflokkinn en Verkamannaflokkinn, sé nú kominn niður í 39 ár, en í kosningunum árið 2017 voru kjósendur yfir 47 ára aldri líklegri til þess að kjósa Íhaldsflokkinn. Íhaldsflokknum gekk því betur að ná til unga fólksins nú.
Í könnun YouGov voru þátttakendur spurðir um afstöðu sína til Brexit í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2016. Í ljós kom, meðal annars, að 74% þeirra sem sögðust hafa kosið með útgöngu úr ESB hefðu kosið Íhaldsflokkinn nú, en Verkamannaflokknum tókst að sama skapi einungis að fá tæpan helming þeirra sem vildu vera áfram í ESB til þess að kjósa sig.