Áfram afgerandi kynslóðabil í breskum stjórnmálum

Jeremy Corbyn og Boris Johnson í kappræðum BBC fyrir kosningar. …
Jeremy Corbyn og Boris Johnson í kappræðum BBC fyrir kosningar. Íhaldsflokkur Johnsons vann stórsigur í kosningunum, en aldursdreifing kjósenda flokkanna tveggja er afar ólík. AFP

Ungir kusu Verkamannaflokkinn og þeir eldri Íhaldsflokkinn í nýafstöðnum þingkosningum í Bretlandi, samkvæmt niðurstöðum kosningarannsóknar sem breska fyrirtækið YouGov hefur framkvæmt á síðustu dögum.

Tæplega 42.000 manns svöruðu könnuninni og eins og sjá má hér að neðan var mikið kynslóðabil að merkja í svörum kjósenda. Um það bil helmingur kjósenda undir fertugu sagðist hafa kosið Verkamannaflokkinn, sem beið þrátt fyrir það afhroð í kosningunum á fimmtudag.

Þeir sem eldri eru kusu Íhaldsflokkinn og fer stuðningur við Íhaldsflokkinn stighækkandi eftir aldri, á meðan að hið þveröfuga á við um Verkamannaflokkinn. Þetta má glögglega sjá í grafinu hér að neðan.

Graf/YouGov


Fleiri ungir völdu Íhaldsflokkinn núna en síðast

Aldur hefur verið lykilskýringarbreyta í breskum stjórnmálum frá þjóðaratkvæðagreiðslunni um útgöngu Bretlands úr Evrópsambandinu árið 2016. Þá kaus meirihluti yngri kjósenda að vera áfram í ESB, en meirihluti þeirra sem eru eldri eru vildi yfirgefa sambandið. Í þingkosningunum árið 2017 var einnig mikið kynslóðabil, en það hefur raunar minnkað síðan þá þrátt fyrir að vera enn mjög afgerandi.

Á vef YouGov segir að skurðpunkturinn, sá aldur þar sem kjósandi verður líklegri til þess að kjósa Íhaldsflokkinn en Verkamannaflokkinn, sé nú kominn niður í 39 ár, en í kosningunum árið 2017 voru kjósendur yfir 47 ára aldri líklegri til þess að kjósa Íhaldsflokkinn. Íhaldsflokknum gekk því betur að ná til unga fólksins nú.

Þeir sem vilja út úr ESB kusu Johnson

Í könnun YouGov voru þátttakendur spurðir um afstöðu sína til Brexit í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2016. Í ljós kom, meðal annars, að 74% þeirra sem sögðust hafa kosið með útgöngu úr ESB hefðu kosið Íhaldsflokkinn nú, en Verkamannaflokknum tókst að sama skapi einungis að fá tæpan helming þeirra sem vildu vera áfram í ESB til þess að kjósa sig.

Graf/YouGov
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert