Drekki ekki kampavín með auðkýfingum

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur fyrirskipað ráðherrum sínum að sniðganga viðskiptaráðstefnuna í Davos í Sviss sem fram fer í næsta mánuði. Það sé ekki í forgangi hjá ríkisstjórninni að drekka kampavín með auðkýfingum.

Haft er eftir heimildarmanni innan ríkisstjórnarinnar á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að áhersla stjórnarinnar sé á það að vinna að hagsmunum bresku þjóðarinnar en ekki að drekka kampavín með auðkýfingum.

Heimildarmaðurinn segir enn fremur við blaðið að ráðstefnan fari auk þess fram á síðari hluta janúar þegar Bretland verði á leið úr Evrópusambandinu. Áhersla stjórnvalda verði á framkvæmd útgöngunnar.

Vísar heimildarmaðurinn því á bug að ákvörðun Johnsons væri til marks um það að Bretland ætlaði ekki að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi. Þannig verði Bretar til að mynda gestgjafar vegna loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á næsta ári.

Rifjað er upp í fréttinni að Johnson hafi áður lýst efasemdum sínum um gagnsemi þess að sækja viðskiptaráðstefnuna í Davos skömmu fyrir þjóðaratkvæðið 2016 þar sem meirihluti breskra kjósenda ákvað að Bretland skyldi yfirgefa Evrópusambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka