Farið fram á handtöku Evo Morales

Morales er nú í útlegð í Argentínu, þar sem þessi …
Morales er nú í útlegð í Argentínu, þar sem þessi mynd var tekin í gær. AFP

Ríkissaksóknari Bólivíu hefur gefið út handtökutilskipun á hendur Evo Morales, fyrrverandi forseta landsins, sem sagði af sér embætti 10. nóvember síðastliðinn eftir mótmælaöldu í landinu.

Morales hefur verið sakaður um að hafa hvatt til hryðjuverka, en hann hélt til Mexíkó eftir að hann sagði af sér embætti og fékk þar pólitískt hæli. Í síðustu viku fór hann hins vegar til Argentínu og er nú þar í útlegð.

Róstusamt hefur verið í Bólivíu í haust, eftir að upp komst um að verulegir annmarkar hefðu verið á framkvæmd forsetakosninga í október, þar sem Morales náði endurkjöri í þriðja sinn.

Morales hefur sakað stjórnmálamenn á hægri vængnum og her landsins um að hafa framið valdarán í og segist fullviss um að sósíalistaflokkur hans, MAS, vinni sigur í næstu kosningum. Morales hefur þegar fengið embætti kosningastjóra flokksins fyrir komandi kosningar, samkvæmt frétt AFP frá því í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka