Málið mun falla um sjálft sig

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Allir líkur eru á því að fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykki ákæru á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta í kvöld. Öldungadeildin mun aftur á móti ekki greiða atkvæði með henni og fellur málið því um sjálft sig. Þetta segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur.

For­set­inn er sakaður um að mis­nota vald sitt og hindra fram­gang rann­sókn­ar þings­ins á því hvernig hann reyndi að setja þrýst­ing á stjórn­völd í Úkraínu til að ráðast á póli­tísk­an and­stæðing í kom­andi for­seta­kosn­ing­um.

Dr. Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur.
Dr. Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur. mbl.is/​Hari

Pólitískt ferli 

Eiríkur segir stöðuna í grundvallaratriðum þá sömu og þegar mbl.is spurði hann út í málið í september. Margt hafi þó komið fram sem sé forsetanum mjög erfitt og er jafnvel neyðarlegt fyrir hann. „Það eru allar líkur á að fulltrúadeildin samþykki ákæruna en vandinn er að þetta er pólitískt ferli og það mun að öllum líkindum falla á pólitíkinni. Repúblikanar í öldungadeildinni munu ekki fallast á niðurstöðu demókratanna í fulltrúadeildinni. Þá fellur málið auðvitað um sjálft sig,” segir hann en repúblikanar eru í meirihluta í öldungadeildinni.

Svo gott sem útilokað er forsetinn verði settur af og eru demókratar því ekki að vonast til þess að ferlið leiði til þess, að mati Eiríks. Í staðinn vonast þeir til að koma á hann pólitísku höggi. „Það er matsatriði hvort það skili einhverjum árangri eða ekki.”

Nancy Pelosi.
Nancy Pelosi. AFP

Tveir Bandaríkjaforsetar hafa verið ákærðir af fulltrúadeildinni en öldungadeildin hefur aldrei fallist á niðurstöðuna. Eiríkur segir skrítið að beita einhverju sem lítur út eins og lagalegt tæki en í raun sé það pólitískt þegar upp er staðið.

Trump skrifaði fimm blaðsíðna reiðibréf til Nancy Pelosi, leiðtoga demókrata í fulltrúadeildinni, vegna málsins þar sem hann talaði um tilraun demókrata til valdaráns og sagði þá reyna að grafa undan lýðræðinu í Bandaríkjunum með ákærunni. „Hann tekur á þessu eins og maður hefði búist við og með þeim hætti sem þessi maður tekst á við mál,” segir Eiríkur, spurður út í viðbrögð forsetans.

Bandaríkjaþing.
Bandaríkjaþing. AFP

Telur að Trump nái endurkjöri

Forsetakosningarnar fara fram á næsta ári og vonast demókratar vafalítið til þess að málið verði til þess að Trump nái ekki endurkjöri. „Ég hef haldið því fram frá upphafi að það séu meiri líkur á því heldur en minni að hann verði endurkjörinn. Ég hef ekki séð neitt sem hefur breytt því mati. En það er engin leið að spá fyrir um það með neinni vissu. Það á svo ótrúlega margt eftir að gerast,” greinir hann frá.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert