Tekist hefur verið á um það í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í kvöld hvort rétt sé að ákæra Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir brot í embætti. Þingmenn Demókrataflokksins hafa lýst þeirri skoðun sinni að það sé yfir allan vafa hafið að Trump hafi brotið af sér í embætti og að enginn sé yfir lögin hafinn. Ekki einu sinni forsetinn.
Þingmenn Repúblikanaflokksins hafa á hinn bóginn sagt að engin lög hafi verið brotin. Sönnunarbyrðinni hafi verið snúið á haus. Demókratar hafi ekki sýnt fram á sekt Trumps. Hins vegar ætlist þeir til þess að forsetinn sýni fram á sakleysi sitt. Sömu aðilar hafi ranglega fullyrt að Trump hafi átt í samstarfi við rússnesk stjórnvöld.
Málið snýst einkum um símtal Trumps við forseta Úkraínu, Volodimír Zelenskí, í júlí síðasta sumar þar sem hann er sakaður um að hafa sett sem skilyrði fyrir hernaðaraðstoð við landið að þarlend stjórnvöld létu rannsaka Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og þátttakanda í forkosningu demókrata, og son hans Hunter Biden vegna setu þess síðarnefnda í stjórn úkraínska orkufyrirtækisins Burisma.
Demókratar segja Trump hafa reynt að fá erlend stjórnvöld til þess að hafa afskipti af forsetakosningunum á næsta ári með því að rannsaka mögulegan mótherja hans í kosningunum. Hann hafi margoft sýnt fram á það að hann telji sig yfir lögin hafinn. Repúblikanar segja hins vegar að Úkraína hafi fengið hernaðaraðstoðina og ástæða þess að Trump hafi halið aftur af henni hafi verið vegna spillingar í landinu.
Reiknað er með að niðurstaða atkvæðagreiðslu um ákæruna í fulltrúadeildinni liggi fyrir síðar í kvöld. Demókratar hafa meirihluta í fulltrúadeildinni og verði ákæran samþykkt fer hún til öldungadeildarinnar hvar repúblikanar hafa hins vegar meirihluta.
Verði Trump ákærður verður það í þriðja sinn sem forseti er ákærður. Þeir forverar hans sem ákærðir voru í fulltrúardeildinni eru Andrew Johnson árið 1868 og Bill Clinton 1998. Hvorug ákæran var hins vegar samþykkt í öldungadeildinni.