Pútín gefur í skyn að hann hætti 2024

Vladimir Pútín Rússlandsforseti á fundinum árlega.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti á fundinum árlega. AFP

Vladimir Pútín Rússlandsforseti þykir hafa gefið til kynna á blaðamannafundi í dag að hann hyggist ekki gefa kost á sér til endurkjörs er kjörtímabil hans rennur út árið 2024.

Á árlegum maraþonblaðamannafundi, sem stóð í fjórar og hálfa klukkustund, spannst umræða um stjórnarskrárákvæði um takmörk á setu forseta í embætti. Í stjórnarskrá Rússlands segir að forseti megi ekki sitja lengur en „tvö kjörtímabil samfleytt“. Af þeim sökum sat Pútín samfleytt frá 2000-2008, en lét síðar af embætti í eitt kjörtímabil, 2008-2012, lét lengja kjörtímabilið úr fjórum í sex ár og sneri því næst aftur.

Á fundinum var Pútín spurður hvort honum hugnaðist að láta fjarlægja orðið „samfleytt“ úr ákvæðinu, þannig að forsetum væri einfaldlega óheimilt að sitja lengur en tvö kjörtímabil. Svaraði Pútín að ýmsir stjórnmálafræðingar og aðgerðasinnar vildu sjá ákvæðinu breytt, og kannski yrði það gert. Væri slíkt breyting samþykkt gæti Pútín ekki leikið sama leik og árið 2008, er kjörtímabil hans rennur út árið 2024, heldur væri valdatíma hans lokið.

Margarita Simonyan, ritstjóri rússneska fjölmiðlaveldisins RT, sagði á Twitter í kjölfarið að hafi einhver velkst í vafa um hvort Pútín ætlaði að bjóða sig aftur fram, væri nú ljóst að svo yrði ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert