Á yfir höfði sér 30 ára dóm fyrir þjóðarmorð

Fabien Neretse við upphaf réttarhaldanna í nóvember.
Fabien Neretse við upphaf réttarhaldanna í nóvember. AFP

Saksóknarar í Belgíu hafa farið fram á 30 ára fangelsisdóm yfir fyrrverandi embættismanni í Rúanda, sem sakfelldur hefur verið fyrir þátt sinn í þjóðarmorðunum þar í landi árið 1994.

Maðurinn, Fabien Neretse, er 71 árs gamall landbúnaðarverkfræðingur, en hann var handtekinn í Frakklandi árið 2011. Fern réttarhöld hafa verið haldin í Belgíu vegna stríðsglæpa sem framin voru í Rúanda, sem er fyrrverandi nýlenda Belga, en Neretse er fyrsti maðurinn sem sakfelldur er fyrir alvarlegustu afbrotin, þjóðarmorð. Því til viðbótar var hann fundinn sekur um stríðsglæpi vegna 11 drápa á grundvelli belgískra laga um alþjóðlega lögsögu í slíkum málum.

Neretse var gefið að sök að hafa fyrirskipað morð á 11 almennum borgurum í höfuðborginni Kigali, og tveimur til viðbótar í dreifbýli norðan borgarinnar, í apríl og júlí 1994. Máli sínu til stuðnings vísaði saksóknari í þátttöku Netere á fjöldafundi þar sem félagar hans úr hutu-þjóðflokknum voru hvattir til að útrýma íbúum af minnihlutaþjóðflokknum tutsi. Dómstóllinn sýknaði hann af ákærum um tvö morðanna, en sakfelldi fyrir hin 11. Enn á eftir að gera honum refsingu.

Neretse neitaði sök, en í málsvörn sinni véfengdi hann trúverðugleika þeirra sem höfðu vitnað gegn honum. Sagðist hann hafa verið óvirkur liðsmaður í félagsskap tutsi-þjóðflokksins og vinur þeirra. 

Sögulegur úrskurður

Á grundvelli laga frá 1993 hafa belgískir dómstólar alþjóðlega lögsögu í málum er varða þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni, hvar svo sem glæpirnir voru framdir. Umrætt  dómsmál má að mestu þakka elju Martine Beckers, sjötugs fyrrverandi embættismanns hjá Evrópusambandinu. Systir, mágur og tvítug frænka Beckers voru tekin af lífi í Rúanda í borgarastríðinu á fyrri hluta tíunda áratugarins, og eru morðin rakin til gengis sem tengist Nerets.

Hún leitaði fyrst til belgísku ríkislögreglunnar árið 1994 og hefur síðan unnið með rúöndskum vitnum og mannréttindasamtökum til að fá réttlætinu framfylgt. Lögmaður Beckers segir úrskurð dómstólsins sögulegan. „Það er mikilvægt að hér hafi fengist viðurkennt að fólk hafi verið ofsótt vegna þess hvað það var, ekki hvað það gerði eða hvað því fannst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert