Flugmálastofnun ESB vill meiri stjórn

Tengsl Boeing of bandarískra flugmálayfirvalda þykja hafa verið of náin.
Tengsl Boeing of bandarískra flugmálayfirvalda þykja hafa verið of náin. AFP

Nauðsynlegt er að alþjóðlegar eftirlitsstofnanir fái meiri stjór yfir málefnum flugvélaframleiðandans Boeing, segir Patrick Ky, framkvæmdastjóri Flugmálastofnunar Evrópusambandsins. Financial Times greinir frá.

Hann segir bandarísk yfirvöld skorta „formfast ferli“ Evrópusambandsins, sem hefði vakið spurningar er Boeing komst sjálft að þeirri niðurstöðu að flugstjórnarbúnaður Boeing 737 Max-vélanna hefði ekki talist öryggisógn (e. safety critical) við rannsókn á tveimur flugslysum, sem urðu 346 manns að bana. Umræddur búnaður hefur síðar verið talinn lykilþáttur í brotlendingu þeirra.

„Það sem fór úrskeiðis voru aðferðir Boeing við að framkvæma tiltekið mat og hvernig það var tekið upp hjá stjórn Bandarísku flugmálastofnunarinnar,“ segir Ky og bætir við að þótt allar eftirlitsstofnanir geti gert mistök hafi Evrópusambandið mun „skipulagðara og ... formfastara ferli.“ „Hefði Airbus skilað svipaðri skýrslu hefðum við tekið eftir því mun fyrr að öryggisógnin væri ekki eins lítil og lýst var.“

Boeing 737 Max-vélar.
Boeing 737 Max-vélar. AFP

Samkvæmt núgildandi alþjóðakerfi er það í höndum flugvélaframleiðenda að framkvæma tiltekin öryggispróf og -vottanir sjálfir, undir eftirliti frá flugmálastofnun heimaríkis síns. Bandaríska flugmálastofnunin hefur að undanförnu legið undir ámæli fyrir að vera of náin fyrirtækinu Boeing og hafa látið undan þrýstingi frá fyrirtækinu um að takmarka íþyngjandi kröfur sem gerðar eru til fyrirtækisins. Komu þau sjónarmið meðal annars fram í skýrslu í október um vinnubrögð flugmálastofnunarinnar. Hefur skýrslan grafið undan trausti á Bandarísku flugmálastofnuninni og vakið spurningar um þá gagnkvæmu viðurkenningu flugmálaeftirlita heimsins á störfum hvert annars.

Á blaðamannafundi í höfuðstöðvum Evrópsku flugmálastofnunarinnar í Köln sagði Ky þó að Evrópska flugmálastofnunin væri staðföst í trú sinni á hið alþjóðlega kerfi. Hins vegar yrðu samskipti flugmálaeftirlits Evrópu og Bandaríkjanna og Boeing að breytast í þessu tiltekna máli.

Sagði hann að enn væri stefnt að því að Flugmálastofnun Evrópu gæfi grænt ljós á endurkomu vélanna í lok febrúar, á sama tíma og Flugmálastofnun Bandaríkjanna gerði slíkt. „Það væri best fyrir alla,“ sagði hann.

Meðal þess sem stendur endurkomu vélanna fyrir þrifum er viðurkenning yfirvalda á nýju stýrikerfi flugstjórnartölvu, flughermis og reynsluflugs en stefnt er að því að ljúka því í janúar.

Talið er að kostnaður Boeing af kyrrsetningunni nemi allt að 4 milljörðum Bandaríkjadala á ársfjórðungi en því til viðbótar stendur félagið í málaferlum við fjölskyldur fórnarlamba flugslysanna sem fara fram á miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert