Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, hefur beðist afsökunar á því að hafa farið í leyfi til Hawaii í vikunni á sama tíma og náttúruhamfarir geisa heima fyrir. Hann ákvað í dag að stytta fríið og koma sér heim til Ástralíu eftir að hafa verið harðlega gagnrýndur fyrir að fara í fjölskyldufrí á meðan kjarreldar og hitabylgja ógna lífi og eignum fjölmargra Ástrala.
Morrison baðst afsökunar á fjölskyldufríinu þegar greint var frá því að tveir sjálfboðaliðar sem unnu við slökkvistarf létust. Tugir nýrra kjarrelda hafa blossað upp í vikunni í ólýsanlegum hita og roki. Milljónir íbúa Sydney búa við afar slæm skilyrði vegna reyksins frá kjarreldunum allt í kringum borgina. Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í ríkinu, New South Wales.
Í tilkynningu biður Morrison afsöunar á því að hafa farið með fjölskylduna í leyfi á sama tíma og margir Ástralar hafa orðið fyrir tjóni vegna kjarreldanna. Hann bætti við að hann myndi snúa aftur til Ástralíu eins fljótt og auðið er.
Geoffrey Keating, 32 ára og Andrew O'Dwyer, 36 ára, létust þegar tré féll á flutningabíl þeirra í gær þegar þeir voru að berjast við kjarrelda sem geisa stjórnlaust suður af Sydney. Þrír aðrir sem voru í bílnum sluppu með minni háttar meiðsl.
Fjölmargir hafa tekið þátt í mótmælum vegna fjarveru Morrison á meðan þjóðin berst við afleiðingar kjarreldanna. Á samfélagsmiðlum hefur myllumerkið #WhereIsScomo farið eins og eldur í sinu. Ekki minnkaði reiði almennings þegar starfsfólk forsætisráðuneytisins neitaði að upplýsa um hvar ráðherrann væri.
„Við horfum upp á algjöran skort á leiðtoga í ríkisstjórninni og þetta er hneisa,“ segir Leighton Drury, formaður landssambands slökkviliðsmanna. „Hvar í fjandanum ertu?“ bætti hann við.
Líkt og fram kom í gær hefur verið lýst yfir neyðarástandi í fjölmennasta ríki Ástralíu, New South Wales, en ástandið þar er ólýsanlegt. Í dag breiddist neyðin út til Suður-Ástralíu og vara slökkviliðsmenn við því að of hættulegt sé að reyna að berjast við eldana sem geisa meðal annars á vínekrum í Adelaide Hills.
Að minnsta kosti þrjár milljónir hektara lands hafa brunnið, átta manns eru látnir og yfir 800 heimili hafa orðið eldunum að bráð í Ástralíu undanfarna mánuði.
Kjarreldar eru ekki nýir af nálinni í Ástralíu en aldrei áður jafn alvarlegir og jafn víða og nú. Vísindamenn telja að rekja megi þetta til hlýnunar jarðar en ríkisstjórn Morrisons hefur hingað til ekki viljað tengja þetta tvennt saman.
Á sama tíma falla hitametin stöðugt en á miðvikudag mældist meðalhitinn í landinu öllu 41,9 stig og felldi þar með hitametið sem var sett daginn áður. Þá mældist hitinn 40,9 gráður en fyrra metið var frá því í janúar 2013, 40,3 gráður.
Í hluta Ástralíu er hitinn um 50 gráður en vonir standa til þess að verulega dragi úr hitanum á morgun og í suðurhluta landsins lækki hann um allt að tuttugu gráður.