Ók á 14 ára stúlku af því að hún var mexíkósk

Nicole Marie Poole Franklin játaði skýlaust að hafa ekið á …
Nicole Marie Poole Franklin játaði skýlaust að hafa ekið á 14 ára stúlku „af því að hún leit út fyrir að vera mexíkósk“. Ljósmynd/Lögreglan í Iowa

Bandarísk kona hefur verið ákærð fyrir tilraun til manndráps fyrir að aka vísvitandi á 14 ára gamla stúlku. Í yfirheyrslu hjá lögreglu sagði konan að hún hefði keyrt á stúlkuna af því að „hún leit út fyrir að vera mexíkósk“.

Stúlkan var á gangi á leið í skólann 9. desember síðastliðinn, í nágrenni Des Moines í Iowa-ríki, þegar konan ók á hana. Lögregla óskaði eftir aðstoð almennings áður en Nicole Marie Poole Franklin var handtekin. 

Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að ekki hafi verið um slys að ræða heldur hafi verið ekið á stúlkuna af ásettu ráði. Michael Venema lögreglustjóri sagði á blaðamannafundi í dag að hann hafi fengið áfall þegar hann heyrði játningu Franklin. 

„Hún sagði margt niðrandi um fólk af suður-amerískum uppruna við rannsakendur málsins,“ sagði Venema og bætti við að slík hatursorðræða væri ekki liðið í samfélaginu. 

Franklin, sem er 42 ára, var þegar í haldi lögreglu vegna gruns um ýmis önnur brot sem hún framdi sama dag. Til skoðunar er að ákæra hana fyrir hatursglæp. 

Stúlkan fékk heilahristing og marðist alvarlega en er á batavegi.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert