Trump skaut fast á kristilegt tímarit

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gagnrýnt kristilegt tímarit fyrir að kalla hann „siðferðislega týndan og ringlaðan“ og hvetja til þess að honum verði vikið úr embætti.

Í röð tísta sakaði Trump Christianity Today um að vera „mjög vinstrisinnað, og kvaðst hann hafa gert meira fyrir evangelíska söfnuðinn en aðrir forsetar.

„Enginn forseti hefur gert meira fyrir evangelíska samfélagið, meira að segja langt frá því,“ sagði Trump.

Hann sagði tímaritið „frekar vilja hafa róttækan vinstrisinnaðan trúleysingja sem vill taka af ykkur trúna og byssurnar ykkar heldur en að hafa Donald Trump sem forseta“.

Tímaritið gat ekki setið á sér 

Í ritstjórnargrein í gær kom fram að þrátt fyrir að tímaritið haldi sig jafnan fjarri stjórnmálum „finnst okkur nauðsynlegt af og til að segja okkar skoðun um pólitísk málefni“.

„Staðreyndirnar í málinu eru ekki óljósar,“ stóð í greininni. „Forseti Bandaríkjanna reyndi að nota pólitískt vald sitt til að þvinga erlendan leiðtoga til að áreita og gera lítið úr einum af pólitískum andstæðingum forsetans. Það er ekki bara brot á stjórnarskránni heldur sérstaklega siðlaust.“

Predikarinn Billy Graham, sem lést í fyrra, stofnaði Christianity Today. Fjölskylda hans tengist tímaritinu ekki lengur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert