Yfirvöld í Ástralíu hafa hvatt fólk sem hugðist ferðast til fylkisins New South Wales (NSW) að fresta fyrirhuguðum ferðalögum vegna náttúruhamfara sem geisa en kjarreldar og hitabylgja ógna lífi og eignum fjölmargra Ástrala.
Hitastig heldur áfram að hækka í landinu og sterkir vindar hafa orðið til þess að eldurinn breiddist yfir þrjú fylki í dag.
Áður hafði verið lýst yfir neyðarástandi í fjölmennasta fylki Ástralíu, New South Wales. Milljónir íbúa stærstu borgar ríkisins, Sydney, búa við afar slæm skilyrði vegna reyks frá kjarreldum sem loga á þremur stöðum í kringum borgina.
„Við biðjum fólk um að ferðast ekki á vegum í grennd við eldsvoða nema brýn nauðsyn sé til,“ sagði fylkisstjóri NSW, Gladys Berejiklian, á blaðamannafundi.
Yfir 40 stiga hiti og miklir vindar hafa orðið til þess að það er nánast ómögulegt fyrir 10 þúsund slökkviliðsmenn í NSW að eiga við eldana.
„Þetta eru ótrúlegir þurrkar en á sumum svæðum hefur ekki rignt í meira en ár,“ sagði slökkviliðsstjórinn Ben Shepherd. Hann sagðist búast við því að eldarnir héldu áfram að breiðast út eftir jól.
Geoffrey Keating, 32 ára og Andrew O'Dwyer, 36 ára, létust þegar tré féll á flutningabíl þeirra í gær þegar þeir voru að berjast við kjarrelda sem geisa stjórnlaust suður af Sydney.
Alls hafa átta manns látið lífið í eldunum og 700 heimili brunnið til grunna frá því í september.