Fjölskyldumeðlimir þeirra sem létust í banvænum flugslysum þar sem Boeing 737-MAX vélar brotlentu eru ekki sáttir með eftirmann fyrrum framkvæmdastjóra fyrirtækisins.
Dennis Muilenberg, fyrrum framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sagði af sér í dag. Er afsögnin sögð tilraun fyrirtækisins til að endurheimta traust almennings eftir tvö banvæn flugslys þar sem 737 MAX vélar fyrirtækisins áttu í hlut. BBC greinir frá þessu.
Fleiri en 340 manns létu lífið í flugslysunum og var Boeing gagnrýnt fyrir að hafa sett hagnað framar öryggi í sinni ákvarðanatöku.
Fjölskyldur fórnarlambanna fagna afsögn Muilenbergs, sem þær segja löngu tímabæra. Þó segja fjölskyldurnar að ákvörðun Boeing um að skipta honum út fyrir stjórnarmeðlim sem hefur setið í stjórn fyrirtækisins í langan tíma ekki til þess fallna að auka traust til fyrirtækisins. Sú ákvörðun veki upp spurningar um vilja Boeing til að gera breytingar á rekstrinum.
Eftirmaður Muilenbergs er David Calhoun. Hann hefur setið í stjórn fyrirtækisins síðan árið 2009 og er núverandi stjórnarformaður.
„Á sama tíma og afsögn Muilenbergs er skref í rétta átt þá er skýrt að Boeing þarf að lappa upp á helstu stjórnunarstöður innan fyrirtækisins,“ sagði Paul Njoroge, sem missti konu sína, þrjú börn og tengdamóður í öðru flugslysanna.
„Calhoun er ekki rétti maðurinn í starfið,“ bætti Njoroge við. Fjölskyldur fleiri fórnarlamba flugslysanna tóku undir orð Njoroge.