Leit hætt á Hvítueyju

Umfangsmikil leit hefur staðið yfir á eyjunni.
Umfangsmikil leit hefur staðið yfir á eyjunni. AFP

Lögreglan á Nýja-Sjálandi hefur ákveðið að hætta að leita að líkamsleifum tveggja ferðamanna sem ekkert hefur spurst til eftir að eldgos braust út á Hvítueyju fyrr í þessum mánuði. 

Alls létust 19 í hamförunum þar á meðal þau Winona Jane Langford, sem var 17 ára, og Hayden Bryan Marshall-Inman, sem var fertugur, en lík þeirra hafa ekki fundist. Talið er að þau hafi verið sjónum skammt frá eyjunni þegar eldgosið hófst.

Lögreglan segir að þessi ákvörðun hafi verið tekin í kjölfar umfangsmikillar leitar sem hafi staðið yfir, bæði á landi og úr lofti, og hafa ættingjar þeirra verið upplýstir um málið. Lögreglan er þó í viðbragðsstöðu komi nýjar upplýsingar í ljós um hvar líkin séu að finna. 

Eldgos hófst á eyjunni, sem er vinsæll ferðamannastaður, 9. desember, og voru 47 manns á eyjunni þegar eldsumbrotin hófust. Þar af 24 Ástralir, níu Bandaríkjamenn, fimm Nýsjálendingar, fjórir Þjóðverjar, tveir Kínverjar, tveir Bretar og einn ferðamaður frá Malasíu, að því er fram kemur á vef BBC. 

Í síðustu viku birti lögreglan lista yfir nöfn þeirra 17 sem fundust látnir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert