„Sveppir eru nú helsti staðgengill okkar fyrir kjöt því kjöt er svo dýrt,“ segir Nasrallah, fjölskyldufaðir sem býr í flóttamannabúðum í norðanverðu Sýrlandi. Hann er 43 ára gamall og ræktar sveppi til þess að fæða fjölskyldu sína.
Í kjölfar þess að borgarastyrjöld braust út í Sýrlandi fyrir átta árum síðan fór Nasrallah að rækta sveppi á heimili sínu. „Við borðuðum hlutann af uppskerunni og gáfum smá hluta til vinafólks,“ segir Nasrallah í viðtali við fréttastofu AFP. Hann á þrjú börn og starfaði áður fyrir bæjarstjórnina í bænum Qalaat al-Madiq.
Fyrr á þessu ári neyddist fjölskyldan til að flýja af heimili sínu vegna sprengjuárásar. Þau héldu að tyrknesku landamærunum og fundu athvarf í flóttamannabúðum í bænum Haarem. Atvinnutækifæri þar eru af skornum skammti.
Þar sem fjárhagurinn var þröngur ákvað Nasrallah að rækta sveppi til að sjá fyrir sér og fjölskyldu sinni. „Við borðum hluta sveppanna og seljum hluta þeirra til að sjá fyrir okkur,“ segir Nasrallah.
Hann ræktar sveppina í pokum sem hann kemur fyrir í dimmum, hlýjum herbergjum. Eftir um 20 daga verða pokarnir hvítir. Þá opnar Nasrallah þá og vökvar reglulega, þá verða til sveppir.
Fáir rækta sveppi í Sýrlandi en flóttamenn í flóttamannabúðum grípa í auknum mæli til þessa ráðs til þess að fæða sig og fjölskyldur sínar. Sveppir eru oft notaðir sem staðgengill kjöts en næringarinnihald sveppa og kjöts er mjög ólíkt. Í sveppum er að finna mun minna prótein en fleiri steinefni og vítamín.
Um 6.5 milljónir Sýrlendinga búa við skort á næringarríkum mat og fæðuöryggi. Stór hluti þeirra hefur þurft að yfirgefa heimili sín vegna borgarastyrjaldarinnar.