Bretland mun ekki fylgja neinum reglum Evrópusambandsins eftir að landið yfirgefur sambandið formlega í lok næsta mánaðar að sögn Boris Johnson, forsætisráðherra Breta. Gert er ráð fyrir að útgöngusamningur Johnsons við Evrópusambandið verði endanlega samþykktur af breska þinginu í byrjun janúar í kjölfar kosningasigurs hans í þingkosningunum 12. desember.
Strax í kjölfar þess að Bretland segir skilið við Evrópusambandið taka við viðræður á milli breskra stjórnvalda og sambandsins um fríverslunarsamning. Ráðamenn Evrópusambandsins hafa sagt að forsenda slíkt samnings sé áframhaldandi aðlögun Breta að reglum sambandsins.
Eftir formlega útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu tekur við aðlögunartímabil þar til í lok næsta árs og er gert ráð fyrir að viðræðurnar um fríverslun standi yfir á meðan það tímabil er í gangi. Mögulegt er að framlengja aðlögunartímabilið samkvæmt útgöngusamningnum.
Evrópusambandið hefur sagt að viðræðurnar um fríverslun muni að þess mati taka lengri tíma en eitt ár og fyrir vikið muni þurfa að framlengja aðlögunartímabilið. Johnson hefur hins vegar sagt að það komi ekki til greina og bundið verði í lög að tímabilið ljúki í lok næsta árs.
Fyrir vikið hefur verið bent á að takist ekki að semja um fríverslunarsamning fyrir lok næsta árs gæti komið til þess að ekki verði samið um viðskipti á milli Evrópusambandsins og Bretlands. Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá þessu.