Kína, Rússland og Íran stilla saman strengi sína

Kínverska herskipið Xining er það öflugasta í flotanum.
Kínverska herskipið Xining er það öflugasta í flotanum. AFP

Kína, Rússland og Íran ætla að halda sameiginlegar sjóhersæfingar á Oman-flóa. Æfingarnar hefjast á morgun og standa yfir í fjóra daga.

Markmið heræfinganna er að „dýpka skilning og auka samvinnu“ sjóherja ríkjanna þriggja, sagði talsmaður varnarmálaráðuneytis Kína, Wu Qian, við fjölmiðla. Hann vildi þó ekki greina frá því hversu margir sjóhersliðar kæmu til með að taka þátt í æfingunni.

Wu sagði einnig að kínverski sjóherinn myndi nota sitt öflugasta herskip, Xining, á æfingunum. Skipið hefur verið kallað „flugmóðursskipabani“ (e. Carrier killer) vegna þess hve ríkulega það er útbúið af vopnum, sérstaklega vopnum til að skjóta niður eldflaugar með stýribúnaði.

Talsmaður hernaðaryfirvalda í Íran sagði að tilgangur æfinganna væri að auka „alþjóðlegt viðskiptaöryggi á svæðinu“ og „að berjast gegn hryðjuverkjum og sjóræningjastarfsemi“.

Æfingin myndi því skapa stöðugleika á svæðinu og þannig þjóna hagsmunum heimsins.

Talið er að æfingin muni auka óróleika í samskiptum ríkjanna þriggja við Bandaríkin. Sérstaklega samskipti Írans og Bandaríkjanna sem hafa verið spennuþrungin síðan Bandaríkin drógu sig úr kjarnorkusamkomulagi við Íran sem gerður var árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert