Mótframboð gegn Netanyahu

Gideon Sa'ar, mótframbjóðandi Netanyahu.
Gideon Sa'ar, mótframbjóðandi Netanyahu. AFP

Gideon Saar, fyrrverandi innanríkisráðherra Ísrael, hefur ákveðið að bjóða sig fram gegn Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, í formannskjöri Likudflokksins.

Búist er við því að Netanyahu beri sigur úr bítum, en mótframboð Saar mun þó vera ákveðið reiðarslag fyrir forsætisráðherrann sem hefur staðið í ströngu að undanförnu, en hann á yfir höfði sér ákærur fyrir mútur og spillingu. Þá hefur honum ekki tekist að mynda ríkisstjórn í landinu eftir tvennar þingkosningar sem fram fóru í apríl og september. Gert er ráð fyrir að þriðju þingkosningarnar fari fram í mars næstkomandi. 

Samkvæmt fréttaritara BBC hefur Netanyahu verið öflugur í kosningabaráttu sinni, þrátt fyrir að sigur hans sé svo gott sem vís, vegna þess að hann vill vinna stóran sigur.

Forsætisráðherrann nýtur mikils stuðnings innan Likudflokksins, en mótframboð Saar er talin vera stærsta áskorun sem Netanyahu hefur staðið frammi fyrir í áratugar stjórnartíð hans innan flokksins. 

Saar er tæplega tuttugu árum yngri en Netanyahu og hefur áður gengt embætti innanríkisráðherra í ríkisstjórn hans. Saar hefur varað við því að Netanyahu hafi ekki burði til þess að leiða Likudflokkinn til sigurs í kosningunum í mars. Þá er einnig óvíst hvort að Netanyahu megi yfirhöfuð bjóða sig fram í almennum kosningum, ef réttarhöldin yfir honum ná fram að ganga. Búist er við því að Hæstiréttur Ísrael skeri úr um það í næstu viku.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert