Hingað til hafa Þjóðverjar skotið upp flugeldum eins og gamlárskvöld sé hið síðasta en nú virðist verða þar breyting á. Er það rakið til loftslagsváarinnar sem tekin er alvarlega þar í landi. Nokkrir umsvifamiklir söluaðilar hafa ákveðið að selja ekki flugelda fyrir þessi áramót.
„Flugeldarnir endast í klukkutíma en við viljum vernda dýrin og að andrúmsloftið sé hreint 365 daga á ári,“ segir Uli Budnik, sem rekur REWE-matvörukeðjuna í Dortmund, en REWE hefur ákveðið að selja ekki flugelda í ár.
Í síðasta mánuði tilkynntu forsvarsmenn Hornbach að það væri of seint að stöðva flugeldapöntun ársins en þetta yrði í síðasta skiptið sem þar yrðu seldir flugeldar.
Bauhaus íhugar að hætta sölu á næsta ári og Edeka-verslanakeðjan er þegar hætt að selja flugelda.
Umhverfissinnar fagna þessari ákvörðun og hversu margir eru á því að banna flugelda. Það hefði þótt óhugsandi fyrir nokkrum árum, þar sem Þjóðverjar eru þekktir fyrir að skjóta upp gríðarlegu magni flugelda á gamlárskvöld.
Skoðanakannanir þar í landi sýna að meirihluti landsmanna styður bann við flugeldum vegna umhverfismála þrátt fyrir að flestir telji flugelda fallega.