Fyrrum félagi „illskan uppmáluð“

Edward Gallagher (í miðjunni) fagnar í júlí síðastliðnum ásamt eiginkonu …
Edward Gallagher (í miðjunni) fagnar í júlí síðastliðnum ásamt eiginkonu sinni Andreu eftir að hafa verið sýknaður af morði. AFP

Leiðtogi sérsveitar innan bandaríska sjóhersins, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti veitti umdeildan stuðning þrátt fyrir ákæru um stríðsglæpi, var sagður „illskan uppmáluð“ og „eitraður“ af fyrrverandi samherjum hans í Írak.

New York Times greindi frá þessu.

Í vitnisburði sem var tekinn upp á myndband af rannsakendum vegna stríðsglæpa og birtur var í dag sjást fyrrverandi meðlimir sérsveitarinnar, undir stjórn Eddie Gallagher, saka hann um að hafa skotið tólf ára barn. Einnig minnast þeir á orðróm um að Gallagher hafi miðað á almenna borgara.

„Náunginn er illskan uppmáluð,“ sagði Craig Miller sem var hluti af sérsveitinni, við stríðsglæpadómstól sjóhersins.

Annar meðlimur, Corey Scott, sagði: „Það var greinilegt að honum fannst allt í lagi að drepa allt sem hreyfðist.“

„Náunginn var eitraður,“ bætti Joshua Vriens við.

Skip bandaríska sjóhersins.
Skip bandaríska sjóhersins. AFP

Neitaði öllum ásökunum 

Gallagher hefur neitað ásökununum og segir að fyrrum félagar hans vilji koma á hann óorði því þeir hafi ekki náð sama árangri og hann.

Gallagher var upphaflega sakaður um að hafa stungið til bana 17 ára liðsmann Ríkis íslams, sem hafði verið tekinn höndum í Írak í maí 2017.

Eftir að réttarhöldin yfir honum hófust í byrjun þessa árs vakti málið mikla athygli í íhaldssömum fjölmiðlum, sérstaklega Fox News, og lýsti Trump yfir stuðningi við hann.

Donald Trump í Mar-a-Lago á Flórída.
Donald Trump í Mar-a-Lago á Flórída. AFP

Forsetinn greip tvívegis inn í 

Í mars lét forsetinn flytja Gallagher úr fangelsi yfir í sjúkrahús sjóhersins þar sem hann naut meira frelsis.

Í júlí sýknaði herdómstóll hann af ákæru um morð en dæmdi hann sekan um að hafa stillt sér upp vegna ljósmyndar hjá líki liðsmanns Ríkis íslams.

Gallagher var lækkaður í tign og lét sjóherinn fjarlægja nælu sem hann bar sem táknar að hann sé í miklum metum hjá sérsveitinni. Trump brást við með því að fyrirskipa að hann fengi næluna á nýjan leik og yrði hækkaður aftur í tign. Hann tísti um málið á Twitter þar sem hann sagði það hafa verið meðhöndlað á rangan hátt alveg frá byrjun.

Síðar hóf stríðsglæpadómstóll sjóhersins, NCIS, rannsókn og kallaði liðsmenn sérsveitarinnar í skýrslutöku.

Í síðustu viku tók Trump á móti Gallagher og eiginkonu hans í Mar-a-Lago, dvalarstað forsetans á Flórída þar sem hann eyðir jólafríinu sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert