Taílenskur kafari sem kom að hellabjörgun hóps drengja úr vatnsfylltum helli í Taílandi síðastliðið sumar er látinn. Hann lést úr blóðeitrun sem hann varð fyrir við björgunarstörfin.
Beirut Pakbara var í taílenska sjóhernum, sem greinir frá andláti hans á vef sínum. Þar segir að Pakbara hafi fengið blóðeitrun við björgun drengjanna úr Tham Luang-hellinum. Hann hafi verið undir eftirliti lækna en heilsu hans hafi hrakað og hann látist í gær, föstudag.
Björgunaraðilar unnu þrekvirki þegar þeir björguðu 12 drengjum og fótboltaþjálfara þeirra úr hellinum í júlí á síðasta ári eftir að flætt hafði inn í hann. Drengirnir sátu fastir í ríflega tvær vikur áður en þeim var bjargað úr hellinum. Annar kafari, Saman Gunan, lést á meðan á björgunaraðgerðum stóð.