Kunnu öll þrjú að synda

Fjöl­skyld­an var í fríi á Costa del Sol.
Fjöl­skyld­an var í fríi á Costa del Sol. AFP

Kona sem horfði upp á eiginmann sinn, son og dóttur drukkna í sundlaug við hótel þeirra á Costa Del Sol á Spáni á aðfangadagskvöld segir þau öll hafa kunnað að synda. Eitthvað hljóti að hafa verið að sundlauginni sem gerði þeim erfitt um vik.

Samkvæmt upplýsingum spænsku lögreglunnar drukknuðu þau Gabriel Diya, 52 ára, dóttir hans, Comfort Diya, níu ára, og sonur hans, Praise-Emmanuel Diya, 16 ára, í sundlaug hótelsins á aðfangadagskvöld vegna þess að aðstæður voru þeim um megn.

Olubunmi Diya segir það hins vegar ekki geta verið rétt, enda hafi þau öll kunnað að synda, og að eitthvað hlyti að hafa verið að sundlauginni. Eiginmaður hennar hafi notað stigann til að komast ofan í laugina til að koma börnum sínum til aðstoðar á meðan hún hljóp eftir aðstoð. Þegar hún hafi komið til baka hafi þau öll þrjú verið meðvitundarlaus í kafi.

Spænskir fjölmiðlar höfðu áður greint frá því að önnur dóttir Olubunmi hafi sagt lögreglu að þau sem drukknuðu hefðu verið ósynd. Móðirin þvertekur fyrir að nokkuð slíkt hafi komið fram í samtölum við lögreglu eða fjölmiðla.

Rekstraraðilar hótelsins segja sundlaugina hafa virkað eðlilega þetta örlagaríka kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert