Lögmenn brotaþola Weinstein gætu hagnast vel á sáttagerð

Tugir kvenna sökuðu Harvey Weinstein um kynferðislega misnotkun í kjölfar …
Tugir kvenna sökuðu Harvey Weinstein um kynferðislega misnotkun í kjölfar MeToo byltingarinnar. AFP

Lögmenn meintra brotaþola Harvey Weinstein gætu fengið 10 sinnum meira í sinn hlut en konurnar sjálfar, nái samkomulag sem gert hefur verið við Weinstein fram að ganga. 

Samkvæmt Guardian komust 30 þeirra kvenna sem sakað hafa kvikmyndaframleiðandann um kynferðislega misnotkun, að bráðabirgðasamkomulagi við Weinstein um miðjan desember. Verði sáttagerðin samþykkt fyrir dómstólum mun það ljúka flestum einkamálum sem höfðuð hafa verið gegn Weinstein. 

Sáttagerðin hefur þó verið harðlega gagnrýnd af lögmönnum og sumra kvennanna sjálfra, en samningaviðræður hafa staðið yfir í tvö ár. 

Elizabeth Fegan, aðallögfræðingur kvennanna í hópmálsókninni, gæti fengið 25% þeirrar fjárhæðar sem sáttagerðin greinir á um, í eigin vasa. Sú upphæð gæti orðið 10 sinnum hærri en það sem sumir brotaþolanna fái sjálfir í sinn hlut, sérstaklega ef fleiri brotaþolar ganga inn í kæruna. 

Segir ekkert hafa breyst 

Douglas Wigdor, lögmaður tveggja brotaþola, segir í samtali við Guardian að hann muni mótmæla sáttagerðinni. Þá segir lögmaðurinn John Clune sem einnig hefur veitt brotaþolum lögfræðilega ráðgjöf við meðferð málsins að sér þætti ekki sanngjarnt að lögmenn fengju meira í sinn hlut en skjólstæðingar þeirra. 

Fjórar konur hafa sagt opinberlega að þær muni andmæla sáttagerðinni, þeirra á meðal nýsjálenska fyrirsætan Zoe Brock sem segir skilmála sáttagerðarinnar bera merki vonleysis og uppgjafar.

Fyrrverandi aðstoðarmaður Weinstein, Zelda Perkins, komst að samkomulagi við framleiðandann árið 1998. „Mér líður eins og þetta sé það nákvæmlega sama og kom fyrir mig,“ segir Perkins. 

„Það sem er svo ógnvekjandi við þetta er að ekkert hefur breyst. Það er siðferðislega rangt að fólkið sem græðir á þessu er enn og aftur Harvey og lögfræðingarnir. Konurnar hafa nú þegar gengið í gegnum svo margt og nú líður þeim eins og þær hafi ekkert val,“ segir Perkins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka