„Ég steig fyrst fæti í Afríku árið 2017. Ég var í heimsókn til Kenía og Rúanda í hlutverkum mínum sem sérlegur ráðgjafi ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um þróun og viðskipti og talsmaður markmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og var að tala fyrir því að frumkvöðlastarfsemi væri leiðin til efnahagsvaxtar.
Ég hafði lesið talsvert um Afríku og taldi að ég hefði hugmynd um hvað væri í vændum. Að mestu átti ég von á að vera fyrir utan þægindarammann – að líða eins og ég væri á framandi slóðum ólíkt því sem ég var vanur.
Það kom mér því verulega á óvart að mér hefði ekki getað liðið meira eins og heima hjá mér.“
Þetta skrifar Jack Ma, meðstofnandi og fyrrverandi framkvæmdastjóri Alibaba Group í Tímamótablaði Morgunblaðsins og New York Times. Þar fjallar hann um meinta ágalla Afríku, sem munu gera hinum kappsömu og útsjónarsömu í álfunni kleift að endurmóta hana þannig að hún taki forustu í heiminum í hagvexti og nýsköpun.
„Alltaf þegar ég ferðast set ég í forgang að hitta ungt fólk og frumkvöðla. Þegar ég talaði við hópa afrískra frumkvöðla og heyrði sögur þeirra og drauma sá ég sjálfan mig fyrir mér fyrir 20 árum þegar ég var rétt búinn að stofna Alibaba.
Ég hef komist að því að víðast hvar í Afríku á okkar dögum er frumkvöðlarekstur ekki jafn hátt skrifaður starfsvettvangur og í Bandaríkjunum og jafnvel í vaxandi mæli í Kína. Fyrir flesta Afríkubúa er skynsamlegast að ná í stöðugt launastarf í banka-, orku- eða námageiranum. Sjálfstæður atvinnurekstur er fyrir braskara – þá sem geta ekki tollað í fastri vinnu og verða að vera skapandi og harðir í horn að taka til að hafa í sig og á.
Þó held ég að framtíð Afríku liggi í frumkvöðlunum – soltnum mönnum sem láta sig dreyma og líta á vandamál sem lausnir. Þegar ég horfði í augun á unga fólkinu sem ég hitti 2017 sá ég framtíðarhetjur Afríku. Og ég hét því að ég myndi gera mitt til að hjálpa þeim að ná takmarki sínu.
Afríka er á barmi mikilla breytinga. Heimurinn er að ganga í gegnum stafræna byltingu sem ég held að muni ekki bara verða sú sem veldur mestum breytingum til þessa, heldur muni þessi tæknibylting ná til fleiri en nokkur önnur. Í dag getur hver sem á snjallsíma fengið lán og stofnað fyrirtæki. Snjallsímatæknin og netið hafa lagt aðgang að óteljandi vörum og ómældri þjónustu í lófann á hverjum einasta manni. Stafræna byltingin gefur möguleikann á að færa Afríku gríðarlega efnahagslega velsæld, sem getur náð til allra. En það þarf stafræna frumkvöðla til að stofna fyrirtækin, sem munu gera allt þetta mögulegt.
Efasemdarmenn gætu bent á innviði í Afríku og sagt að álfan væri ekki tilbúin fyrir stafræna tíma. Sterkir innviðir eru satt að segja til trafala í þessum nýja heimi. Í reynd er Afríka í fullkominni stöðu. Þegar núverandi kerfi virkar of vel verður til andstaða við breytingar og arfleifðin, sem þarf að yfirstíga, of fyrirferðamikil.
Sem betur fer var þetta ekki vandamál í Kína þegar ég stofnaði Alibaba árið 1999. Við vorum með marga íbúa og lágar meðaltekjur. Innviðir í viðskiptum, flutningum og bankastarfsemi voru bágir. En á aðeins tveimur áratugum hefur netnotendum í Kína fjölgað úr 8,8 milljónum manna í 850 milljónir. Meðaltekjur á mann hafa hækkað úr 800 dollurum (99.000 krónum) í 9.000 dollara (1,1 milljón króna) og rafræn viðskipti eru komin í eina billjón dollara (123 billjónir króna). Hagkerfi Alibaba eitt og sér hefur skapað rúmlega 40 milljónir starfa í Kína. Í fyrra voru tekjur af rafrænum viðskiptum í strjálbýli í Kína rúmlega 97 milljarðar dollara (12 billjónir króna) og sköpuðu næstum sjö milljónir nýrra starfstækifæra.
Ég hef trú á því að Afríka geti gert jafnvel enn betur. Skorturinn á innviðum er kostur rétt eins og hann var í Kína. En á meginlandinu eru einnig aðrar forsendur til velgengni. 1,3 milljarðar manna búa í Afríku og 40% þeirra eru undir 16 ára aldri. Sex af þeim tíu hagkerfum, sem vaxa hvað hraðast í heiminum um þessar mundir, eru í Afríku. Og hlutfall þeirra, sem eru komnir með snjallsíma, hækkar hratt.“
Hægt er að lesa grein Jack Ma í heild sinni í Tímamótablaði Morgunblaðsins sem kom út í gær, 28. desember, í samstarfi við New York Times.