Metfjöldi fjöldaárása í Bandaríkjunum

22 létust þegar karlmaður hóf skotárás í verslunarmiðstöð í El …
22 létust þegar karlmaður hóf skotárás í verslunarmiðstöð í El Paso. AFP

Aldrei hafa fleiri fjöldaárásir verið framdar í Bandaríkjunum en á árinu sem er að líða. Samkvæmt rannsókn AP, USA Today og Northeastern-háskólans létust 211 einstaklingar í 41 árás árið 2019. 

Fjöldaárásir eru skilgreindar sem atvik þar sem fleiri en fjórir einstaklingar falla í valinn að undanskildum árásarmanninum. Mannskæðasta fjöldaárásin árið 2019 varð í ágúst þegar 22 létust í verslunarmiðstöð í El Paso. 

Skotvopn komu við sögu í 33 fjöldaárásum á þessu ári og flestar árásanna voru í Kaliforníuríki, alls átta talsins. 

Gagnavinnsla AP, USA Today og Northeastern-háskólans nær aftur til ársins 2006, en rannsókn sem nær aftur til áttunda áratugar síðustu aldar sýnir að aldrei hafa fleiri fjöldaárásir verið framdar á einu ári. Næstflestar fjöldaárásir voru framdar árið 2006, en það ár voru árásirnar 38. 

Jafnvel þó að aldrei hafi fleiri árásir verið framdar létust fleiri í fjöldárásum árið 2017, alls 224 einstaklingar. Það ár var mannskæðasta skotárás í sögu Bandaríkjanna framin í Las Vegas, þegar 59 létust.

Frétt BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert