Úkraínsk stjórnvöld hafa hafið fangaskipti við rússneska aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Um er að ræða lið í vopnahléi í kjölfar fyrsta fundar Vladimirs Pútín Rússlandsforseta og Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, í París 9. desember.
Fangaskiptin eru nokkuð umdeild, en mótmæli hafa brotist út í Úkraínu vegna þess að meðal fanga sem úkraínsk stjórnvöld láta af hendi eru óeirðarlögregluþjónar sem grunaðir eru um að hafa myrt tugi mótmælenda á meðan á uppreisn aðskilnaðarsinna stóð árið 2014. Saksóknari í Úkraínu hefur þó lýst því yfir að réttarhöld yfir þeim haldi áfram.
Að öðru leyti er ekki vitað hverjir eru í hópi þeirra fanga sem skipst er á, en samkvæmt fréttastofu AFP er um að ræða skipti á baráttumönnum, sem úkraínsk stjórnvöld láta af hendi, fyrir almenna borgara og ríkisstarfsmenn sem sumum hverjum hefur verið haldið árum saman á yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna.
Samkvæmt upplýsingum aðskilnaðarsinna fá þeir afhenta 87 fanga frá stjórnvöldum í Kænugarði, sem fá í staðinn 55 fanga. Úkraínsk stjórnvöld eru sögð gjalda skiptin of dýru verði.
Skiptin sjálf fara fram í þorpinu Odradivka, sem er á yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna.