Vill að sundlaugin verði rannsökuð betur

Costa del Sol.
Costa del Sol. AFP

Kona sem horfði upp á eiginmann sinn, son og dóttur drukkna í sundlaug við hótel þeirra á Costa del Sol á Spáni á aðfangadagskvöld vill að frekari rannsókn á málinu fari fram. 

Lögreglan á Spáni telur að þau Gabriel Diya, 52 ára, dótt­ir hans, Com­fort Diya, níu ára, og son­ur hans, Praise-Emm­anu­el Diya, 16 ára, hafi drukknað í sund­laug hót­els­ins vegna þess að aðstæður voru þeim um megn. 

En Olumbunmi Diya segir að bæði börn hennar og eiginmaður hafi verið synd og telur að eitthvað hljóti að hafa verið að sundlauginni sem gerði þeim erfitt um vik. Samkvæmt lögmanni vill Diya að verkfræðingar rannsaki sundlaugina ítarlega. 

Fyrirsvarsmenn hótelsins segja að fullyrðingar Diya standist ekki skoðun og sé í algjöru ósamræmi við rannsóknarskýrslu lögreglu. Þá segir lögregla að kafarar sem náðu í sundhettu Comfort á botni sundlaugarinnar hafi ekki tekið eftir neinu athugaverðu við sundlaugina. Krufning var framkvæmd á líkum hinna látnu sem leiddi í ljós að þau höfðu öll þrjú drukknað.

Lögmaður Diya, Javier Toro sagði þó í samtali við BBC að það „er afar óalgengt að þrjár manneskjur deyi í miðri sundlaug. Sérstaklega hávaxinn, sterkbyggður karlmaður.“

„Eitthvað hlýtur að hafa gerst, annað en einföld mistök eða slys,“ sagði Toro.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert