Rússland Pútíns í 20 ár

Vladimír Pútín er 67 ára gamall og hefur verið leiðtogi …
Vladimír Pútín er 67 ára gamall og hefur verið leiðtogi Rússlands frá því á gamlársdag árið 1999. AFP

Tuttugu ár eru í dag liðin frá því að Vladimír Pútín tók við embætti Rússlandsforseta í fyrsta sinn eftir að Boris Jeltsín sagði óvænt af sér embætti, á gamlársdag árið 1999, í miðju Téteníustríði. Á þeim tveimur áratugum sem síðan hafa liðið hefur KGB-njósnarinn fyrrverandi verið óskoraður leiðtogi Rússlands, ýmist sem forseti eða forsætisráðherra.

Pútín tók fyrst tímabundið við forsetaembættinu, en hafði fram að því verið forsætisráðherra í stjórn Jeltsíns í tæplega hálft ár. Boðað var til kosninga í apríl árið 2000 þar sem Pútín hafði sigur og sat hann svo sem forseti í tvo kjörtímabil, eða þar til árið 2008.

Ákvæði í rússnesku stjórnarskránni koma í veg fyrir að sami maðurinn geti verið forseti meira en tvö kjörtímabil í röð. Því skipaði Pútín pólitískan samverkamann sinn, Dímítri Medvedev, sem forseta og gerðist sjálfur forsætisráðherra á árunum 2008-2012.

Enginn vafi var þó á því hver var helsti leiðtogi Rússlands á þessum árum, hvað sem formlegum titlum leið. Medvedev hafði verið vinsæll, en Rússland var Pútíns og í forsetakosningum árið 2012 fékk leiðtoginn kosningu í forsetaembættið á ný. Á forsetastóli situr Pútín enn og mun fyrirsjáanlega sitja til ársins 2024, þar sem lengd kjörtímabila í Rússlandi er nú sex ár.

Áhugavert er á þessum tímamótum að líta til baka og skoða hvernig Pútín kom heimsbyggðinni fyrir sjónir á fyrstu misserum sínum í embætti forseta. Í greinasafni Morgunblaðsins er enginn hörgull á umfjöllunum frá þessum tíma um þennan nýja leiðtoga Rússlands sem fáir þekktu. 

„Afsögn Jeltsíns talin auka sigurlíkur Pútíns” var fyrirsögn erlendrar fréttaskýringar í Morgunblaðinu 4. janúar 2000. Þar var starfandi forsetinn kynntur fyrir lesendum á nokkuð ítarlegan hátt og farið yfir það hvernig á hann var litið innanlands í Rússlandi og af vestrænum álitsgjöfum.

„Pútín var lítt þekktur meðal almennings í Rússlandi þegar Jeltsín skipaði hann forsætisráðherra í ágúst og kvaðst vilja að hann yrði næsti forseti landsins. Hann varð þá fimmti forsætisráðherra Rússlands á tveimur árum og margir stjórnmálamenn í Moskvu hæddust að honum og spáðu því að Jeltsín myndi víkja honum frá innan nokkurra mánaða eins og forverum hans,“ sagði í umfjöllun Morgunblaðsins, en einnig var greint frá því að stríðið í Téténíu hefði gjörbreytt ímynd Pútíns og aflað honum vinsælda almennings.

Pútín skoðar hér vopn ásamt yfirmönnum rússneska hersins á aðfangadag. …
Pútín skoðar hér vopn ásamt yfirmönnum rússneska hersins á aðfangadag. Hann hefur í gegnum árin gert mikið úr því að byggja upp harðjaxlaímynd af sjálfum sér. AFP

„Pútín hefur getið sér orð fyrir að láta verkin tala og rússneskir fjölmiðlar hafa lofsamað framgöngu hans og festu í hernaðaraðgerðunum í Tsjetsjníu. Einn fjölmiðlanna hefur jafnvel gengið svo langt að líkja honum við "góðu" hörkutólin sem bandaríski kvikmyndaleikarinn Bruce Willis leikur yfirleitt. Pútín styrkti ímynd sína sem harðjaxls á nýársdag með því að fara með herþyrlu til Tsjetsjníu í því skyni að hrósa rússnesku hersveitunum fyrir framgöngu þeirra í átökunum,“ sagði í umfjöllun Morgunblaðsins, en á síðustu tveimur áratugum hefur Pútín lagt sig fram við að efla harðjaxlaímynd sína enn frekar.

„Það er alsendis óvíst hvernig hann mun fara með þessi völd. Það hvílir auðvitað mikil ábyrgð á herðum þess sem fer með svo víðtæk völd og viðkomandi verður að bera þungar byrðar ef illa fer. Að þessu leyti til er enn alveg óljóst hvort Pútín muni takast að hrinda í framkvæmd framsýnum stefnumiðum í efnahagsmálum, innanríkismálum eða utanríkismálum. Öll meiriháttar mistök myndu sjálfkrafa skaða orðstí forsetans og vinsældir hans og þá um leið tækifæri hans til að stýra landinu með styrkri hendi,“ sagði Aleksei G. Arbatov, þáverandi varaformaður varnarmálanefndar Dúmunnar, neðri deildar rússneska þingsins, í viðtali við Morgunblaðið í september árið 2000.

Dvínandi vinsældir forsetans

En hvernig hefur Pútín farið með þessi völd? Rússland hafði farið í gegnum stormasöm ár eftir fall Sovétríkjanna og undir stjórn Jeltsíns hafði landið verið í nokkurri upplausn, eins og rifjað er upp í grein eftir blaðamanninn Marc Bennetts á vefmiðlinum Politico í dag. 

Rússar áttu erfitt með að breyta um stefnu og aðlagast frjálsum markaði eftir áratugi af kommúnisma. Ríkið réði ekkert við erlendar skuldir sínar og fór í greiðsluþrot árið 1998. Stundum liðu mánuðir án þess að opinberir starfsmenn fengju útborgað fyrir störf sín og fátækt var útbreidd og mikil.

Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi forseti Íslands og Halldór Ásgrímsson þáverandi …
Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi forseti Íslands og Halldór Ásgrímsson þáverandi utanríkisráðherra á fundi með Vladimír Pútín í Kreml í upphafi aldarinnar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Í fyrri forsetatíð Pútíns urðu efnahagsaðstæður Rússa betri og segir Bennetts í grein sinni að þetta hafi valdið því að margir hafi forðast að gagnrýna forsetann og stjórnarhætti hans, en Pútín var þegar á fyrstu árum sínum í embætti farinn að þrengja verulega að einstaklings- og fjölmiðlafrelsi í Rússlandi.

Þessu hefur verið lýst sem þöglu samkomulagi við djöfulinn sjálfan. Rússar tóku aukin veraldleg gæði og möguleikann á utanlandsferðum með fjölskylduna fram yfir það að hafa hátt vegna stjórnarhátta Pútíns.

„Hvers virði er tjáningarfrelsið ef ísskápurinn minn er tómur?“ hefur Bennetts eftir eldri konu sem hann hitti að máli árið 2007.

Bennetts, sem verið hefur fréttaritari í Rússlandi um langt skeið, segir í áhugaverðri grein sinni á þessum tímamótum að rússneskur almenningur sé auðsjáanlega ekki jafn hrifinn af Pútín í dag og oft áður.

Þannig sýni mæling á trausti til forsetans frá því í maí á þessu árið að einungis 31% Rússa beri traust til forsetans. Þetta hlutfall hefur ekki verið lægra í heil þrettán ár og eru margir Rússar ósáttir við nýlegar breytingar á eftirlaunakerfinu, mikla fátækt, auk þess sem valdhafar eru ítrekað ásakaðir um spillingu.

Því sé ólíklegt að Rússland verði Pútíns mikið lengur en til 2024, þó uppi séu vangaveltur um að forsetinn muni mögulega reyna að framlengja valdatíð sína með einhverjum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert