Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, þurfti að stytta heimsókn sína til bæjarins Cobargo í Nýja Suður-Wales eftir að reiðir bæjarbúar sögðu honum til syndanna og gagnrýndu aðgerðaleysi hans og áströlsku ríkisstjórnarinnar yfir gróðureldum í landinu.
Bæjarbúar sögðu forsætisráðherrann hafa gert afar lítið til að tryggja öryggi bæjarins hvar tveir létust í vikunni. Þá hafa fjölmargir bæjarbúar einnig misst heimili sín.
18 manns hafa látist í eldunum frá því í september og yfir 1.200 heimili hafa eyðilagst. Þá er 17 manns saknað sem stendur.
Íbúi í Cobargo nálgaðist Morrison þegar hann heimsótti bæinn fyrr í vikunni. „Hvernig stendur á því að aðeins fjórir bílar verja bæinn okkar? Þó að bærinn eigi ekki mikinn pening erum við með hjarta út gulli, forsætisráðherra,“ hrópaði kona á Morrison. Þá heyrðust fleiri köll frá bæjarbúum, sumir kölluðu ráðherrann „hálfvita“ á meðan aðrir sögðu hann ekki vera velkominn í bænum.
„Þú færð engin atkvæði hérna félagi. Engin frjálslynd atvæði — þú ert búinn,“ gjammaði einn íbúanna.
„Hvað með fólkið sem er dáið forsætisráðherra? Hvað með fólkið sem á í engin hús að venda?“ spurði íbúi Morrison þegar honum var flýtt í burtu.
„Ég skil tilfinningar fólks, þau hafa misst allt og það eru erfiðir dagar fram undan,“ sagði Morrison í viðtali í kjölfar heimsóknarinnar til Cobargo.
„Mitt hlutverk er að tryggja stöðugleika á þessum erfiðum dögum og styðja fylkin í þeirra aðgerðum,“ sagði Morrison.