Alþjóðasamfélagið bregst við árás Bandaríkjanna

Fáni Bandaríkjanna sést hér vanvirtur á götu í Bagdad í …
Fáni Bandaríkjanna sést hér vanvirtur á götu í Bagdad í dag. Innan Íraks eru skiptar skoðanir um ágæti aðgerða Bandaríkjanna og líklegt að róstusamt verði í kjölfarið. AFP

Alþjóðasamfélagið hefur brugðist við árás Bandaríkjahers í Bagdad í nótt með ýmsum hætti, en í árásinni féll einn æðsti maður Íransstjórnar, herforinginn Qasam Soleimani. Talið er líklegt að þessi árás geti haft mikil áhrif á þróun mála í Mið-Austurlöndum. Bandamenn Írans hafa fordæmt árás Bandaríkjanna.

Íranar hafa heitið því að hefna sín á Bandaríkjamönnum og olíuverð rauk upp um 4% þegar fyrstu fréttir bárust af árásinni, en þær hækkanir hafa síðan gengið til baka að hluta.

Írak

Stjórnvöld í Írak hafa fordæmt árás Bandaríkjamanna, sem átti sér stað á alþjóðaflugvellinum í Bagdad, höfuðborg ríkisins. Adel Abd­ul Mahdi, starfand for­sæt­is­ráðherra rík­is­ins, tel­ur ör­uggt að aðgerðin muni leiða til „hörmu­legs stríðs í Írak“.

Þar hafa þegar komið fram algjörlega andstæð viðbrögð við árásinni. Stjórnarandstæðingar, sem telja núverandi stjórnvöld of hlynnt Íransstjórn, hafa fagnað á götum úti í morgun.

Stjórnarandstæðingar í Bagdad dansa og syngja af fögnuði yfir fréttum …
Stjórnarandstæðingar í Bagdad dansa og syngja af fögnuði yfir fréttum næturinnar í morgun. AFP

Ali Sistani, helsti klerkur sjítamúslima í landinu, fordæmdi hins vegar árásina og kallaði hana „skefjalausa árás“ og brot á fullveldi Íraks í vikulegri prekikun sinni í helgu borginni Karbala í morgun.

Bretland

Bretar óska eftir því að allir sýni stillingu. Dominic Raab utanríkisráðherra Bretlands segir að stjórnvöld í Lundúnum hafi gert sér grein fyrir ógninni sem stafaði af Soleimani.

„Nú þegar hann er látinn biðjum við alla aðila um að draga úr spennunni. Frekari átök koma engum til góða,“ segir Raab.

Dominic Raab utanríkisráðherra Bretlands (t.v.) ásamt þeim Boris Johnson og …
Dominic Raab utanríkisráðherra Bretlands (t.v.) ásamt þeim Boris Johnson og Donald Trump á NATO-fundi í byrjun desember. AFP

Þýskaland

Ulrika Demmer, talskona Angelu Merkel Þýskalandskanslara, segir að staðan sé varhugaverð.

„Nú er mikilvægt að vinna gegn stigmögnun af skynsemi og stillingu,“ er haft eftir henni í frétt AFP.

Frakkland

Amelie de Montchalin, Evrópumálaráðherra Frakklands, segir að við höfum „vaknað upp í hættulegri heimi“ vegna árásar Bandaríkjamanna, en þessi orð lét hún falla í útvarpsviðtali í morgun.

Hún sagði að Emmanuel Macron forseti landsins myndi eiga í samráði við helstu aðila í Mið-Austurlöndum og að Frakkar myndu helst vilja sjá stöðugleika og að dregið yrði úr spennu.

Rússland

Rússneska utanríkisráðuneytið segir að drápið á Soleimani hafi verið „ævintýralegt skref“ sem muni auka spennuna í Mið-Austurlöndum. Ráðuneytið segir Soleimani hafa verið dyggjan þjón þjóðarhagsmuna Írans og sendir írönsku þjóðinni einlægar samúðarkveðjur.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. AFP

Kína

„Kína hefur alltaf verið mótfallið því að nota vald í alþjóðasamskiptum,“ sagði Geng Shuang, talsmaður utanríkisráðuneytis landsins, á blaðamannafundi í morgun.

„Við hvetjum deiluaðila, sérstaklega Bandaríkin, til þess að halda ró sinni og sýna stillingu til þess að koma í veg fyrir átökin stigmagnist,“ sagði talsmaðurinn og bætti við að virða þyrfti sjálfstæði og fullveldi Íraks.

Kína er í góðu viðskiptasambandi við Íran.

Ísrael

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels hraðaði sér heim úr opinberri heimsókn í Grikklandi til þess að setjast til fundar með ráðgjöfum sínum og ráðherrum heima fyrir.

Hezbollah-samtökin í Líbanon, sem studd eru af Íransstjórn, hafa heitið því að grípa til hefndaraðgerða vegna aðgerða Bandaríkjamanna og slíkar aðgerðið gætu mögulega beinst gegn Ísraelsríki.

Netanjahú í Grikklandi í gær. Hann hraðaði sér heim vegna …
Netanjahú í Grikklandi í gær. Hann hraðaði sér heim vegna fregnanna frá Bagdad. AFP

Af öryggisástæðum ákvað ísraelski herinn að loka skíðasvæði í Hermon-fjalli í Gólan-hæðum í morgun. Skíðasvæðið er þar á hinum umdeildu landamærum Ísraels, Sýrlands og Líbanons, nánar tiltekið á svæði sem Ísraelar lögðu undir sig í sex daga stríðinu árið 1967.

Sýrland

Ríkisstjórn Bashar al-Assads Sýrlandsforseta segir Bandaríkin hafa farið fram með heigulshætti í nótt og sakar bandarísk stjórnvöld um að reyna að kynda undir ófriðarbáli í Mið-Austurlöndum.

Bashar al-Assad Sýrlandsforseti.
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert