Bandaríkin felldu áhrifamikinn íranskan herforingja

Soleimani stýrði sérsveit íranska hersins, Quad Force.
Soleimani stýrði sérsveit íranska hersins, Quad Force. AFP

Bandaríkjaher grandaði í nótt íranska herforingjanum Qasem Soleimani með drónaárás á bílalest hans sem var að leggja upp frá alþjóðaflugvellinum í Bagdad, höfuðborg Íraks. Árás Bandaríkjamanna var fyrirskipuð af Donald Trump forseta, en það hefur varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna staðfest.

Soleimani var mjög áhrifamikill herforingi í Íran, af ýmsum talinn næstáhrifamesti maður ríkisins. Hann stýrði sérsveit hersins, Quad Force, sem heyrir beint undir æðstaklerk landsins, Ali Khameini.

Bandaríkjamenn segja hann bera beina ábyrgð á dauða hundraða bandarískra hermanna í Írak, með því að hafa útvegað uppreisnarmönnum þar í landi vopn og þjálfað þá í sprengjugerð.

Frá árásarstaðnum á alþjóðaflugvellinum i Bagdad í Írak. Árásin átti …
Frá árásarstaðnum á alþjóðaflugvellinum i Bagdad í Írak. Árásin átti sér stað snemma morguns að staðartíma. AFP

Í frétt New York Times segir jafnframt að Suleimani hafi verið arkitekinn að nærri öllum mikilvægum hernaðaraðgerðum Írans síðustu tvo áratugi og að dauði hans sé „stórkostlegt högg“ fyrir írönsk stjórnvöld.

Abu Mahdi al-Muhandis lést einnig í árás Bandaríkjahers.
Abu Mahdi al-Muhandis lést einnig í árás Bandaríkjahers. AFP

Í yfirlýsingu frá Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, segir að Soleimani hafi verið að undirbúa árásir gegn bandarískum embættismönnum og hermönnum í Írak og víðar í Mið-Austurlöndum.

Samkvæmt fregnum létust alls tíu manns í árásinni í nótt. Auk Soleimani var Abu Mahdi al-Muhandis, áhrifamikill leiðtogi úr röðum írakskra uppreisnarmanna, þar á meðal.

Gæti haft miklar afleiðingar

Nær öruggt þykir að þessi árás Bandaríkjamanna muni hafa mikil áhrif á samskipti Bandaríkjanna og Írans og stöðu mála í Mið-Austurlöndum.

New York Times ritar að með því að láta drepa Soleimani hafi Trump Bandaríkjaforseti gripið til aðgerða sem bæði George W. Bush og Barack Obama hafi veigrað sér við að grípa til, sökum ótta um að stríð brysti á milli Bandaríkjanna og Írans. 

Trump tísti mynd af bandaríska fánanum á samfélagsmiðlinum Twitter eftir að árásin hafði verið framkvæmd og fyrstu óstaðfestu fréttirnar af henni fóru að berast, en hefur ekki að öðru leyti tjáð sig um málið.

Íranar lofa hefndum

Olíuverð tók kipp um leið og fregnir bárust af árásinni og fór það upp um 4%, samkvæmt frétt BBC.

Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, hefur kallað árás Bandaríkjamanna „ákaflega hættulega,“ „heimskulega“ og „alþjóðlegt hryðjuverk“.

Ali Khamenei leiðtogi Írans (t.v.) ásamt Soleimani árið 2015.
Ali Khamenei leiðtogi Írans (t.v.) ásamt Soleimani árið 2015. AFP

Ali Khameini leiðtogi Írans hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg og heitir því að ráðist verði í hefndaraðgerðir gegn Bandaríkjamönnum.

Frétt BBC af málinu 

Frétt New York Times af málinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert