Leiðtogar heimsins verða að sýna ábyrgð og koma í veg fyrir frekari stigmögnun átaka við Persaflóa. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í færslu á Twitter í kvöld og tekur þannig undir orð Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
World leaders must show responsibility and prevent further escalation of tensions in the Gulf region, as @antonioguterres has stated. Peace and stability demand diplomacy & collective action, in line with international law.
— Katrín Jakobsdóttir (@katrinjak) January 3, 2020
Æðsti klerkur Írans hefur heitið þeim sem bera ábyrgð á dauða herforingjans Qasem Soleimani grimmilegum hefndum. Soleimani var drepinn í loftárásum Bandaríkjamanna á Bagdad-flugvelli í nótt, en árásin var fyrirskipuð af Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Trump sagði í ávarpi í kvöld að hann hefði fyrirskipað að ráðist yrði á Soleimani þar sem hann hefði verið að undirbúa „yfirvofandi og illgirnislegar árásir“ á Bandaríkjamenn.
„Friður og stöðugleiki krefjast ríkiserindreksturs og sameiginlegra aðgerða, í samræmi við alþjóðalög,“ segir Katrín í færslu sinni, sem bætist í hóp fjölmargra þjóðarleiðtoga sem hafa brugðist við árásinni.