3.000 varaliðsmenn ástralska hersins voru kallaðir til starfa í dag. Verkefni þeirra var að berjast við gróðurelda sem hafa staðið í Ástralíu um nokkurt skeið og verða sífellt ágengari.
Ský urðu svört og ösku rigndi þegar eldarnir geisuðu um suðausturhluta Ástralíu í dag. Eldarnir ógnuðu aflgjöfum stórborga og hitamet voru slegin. Aflmiklir vindar börðu á tveimur fjölmennustu strandsvæðum Nýja Suður-Wales-fylkis og Viktoríufylkis sem eru þau fylki sem hafa nú þegar farið hvað verst út úr eldunum.
Síðan í lok september hafa 23 látið lífið í eldunum, 1.500 heimili hafa eyðilagst eða skemmst og svæði sem nemur tvisvar sinnum stærð Belgíu hefur orðið eldunum að bráð.
Fyrr í dag birti Scott Morison, forsætisráðherra Ástralíu, myndband á Twitter-síðu sinni þar sem hann fór yfir aðgerðir sem ríkisstjórnin ætlaði að ráðast í vegna eldanna. Morrison hefur verið mikið gagnrýndur fyrir aðgerðaleysi sitt vegna eldanna og tóku Ástralar myndskeiði Morrison illa.
Í athugasemdum við færsluna er Morrison kallaður siðblindingi, spurt hversu mikið myndskeiðið hafi kostað og hvort ekki hefði verið betra að nota peningana í að slökkva gróðureldana.
Yfirvöld óttast að eldarnir muni ná nýjum hæðum í nótt þar sem hitastig er hátt og vindhviður sterkar. Yfirvöld hafa gefið út að eldarnir sem enn lifa gætu steypst saman og skapað „ófreskjuelda“ (e. monster infernos) í Viktoríufylki og Nýju Suður-Wales. Ástralska fréttasíðan News greinir frá þessu.
Slökkviliðsmenn í Ástralíu óttast að eldarnir muni dreifa enn frekar úr sér og ná til svæða sem hafa ekki orðið þeim að bráð nú þegar.