Rúmföt, rafmagnsvír, blöð og penni voru meðal þess sem fannst í klefa fangans Jeffrey Epstein þegar komið var að honum látnum í ágústmánuði. Þetta kemur fram í útdrætti úr fréttaskýringaþættinum 60 Minutes, en andlát Epstein verður tekið fyrir í þættinum á morgun.
Epstein fannst látinn um klukkan 6:30 að morgni laugardagsins 10. ágúst, en greint er frá því í þættinum að hann sé talinn hafa látist tveimur tímum fyrr.
Fangelsismálaskrifstofa bandaríska dómsmálaráðuneytisins hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki sérstaka vakt á Epstein eftir að hann fannst í klefa sínum þremur vikum fyrr með áverka sem bentu til sjálfsvígstilraunar.
Heimildarmaður New York Times segir að þegar tekin hafi verið ákvörðun um að hætta sjálfsvígsvakt yfir Epstein hafi fangelsið upplýst dómsmálaráðuneytið um að hann myndi hafa klefafélaga og að vörður myndi líta inn í klefann á hálftíma fresti. Hefur því bersýnilega ekki verið fylgt.