Kataeb Hezbollah, harðlínudeild íraska þjóðvarðaliðsins Hashed al-Shaabi, sem er hliðhollt Írönum, varaði í dag íraskar hersveitir við því að halda sig of nálægt bandarískum sveitum á herstöðvum í Írak.
„Við biðjum öryggissveitir um að halda sig að minnsta kosti 1.000 metra frá bandarískum herstöðvum frá og með sunnudeginum klukkan 17:00 [14:00 GMT],“ segir í tilkynningu frá hópnum.
Tilkynning hópsins kemur eftir að litlar sprengjukúlur lentu nærri bandaríska sendiráðinu á hinu svokallaða græna svæði í miðborg Bagdad fyrr í kvöld. Stuttu seinna hæfðu tvær eldflaugar herstöð skammt norðan Bagdad þar sem bandarískar sveitir dvelja. Íraski herinn staðfesti árásirnar en segir að ekkert mannfall hafi orðið í þeim.
Árásirnar voru fyrstu vísbendingar um hefndaraðgerðir Írana vegna drápsins á Qasem Soleimani, einum æðsta herforingja landsins, sem Bandaríkjamenn tóku af lífi að morgni föstudags. Hafa írönsk stjórnvöld heitið grimmilegum hefndum.
„Svarið við hernaðaraðgerðum eru hernaðaraðgerðir,“ sagði Majid Takht Ravanchi, sendiherra Íran gagnvart Sameinuðu þjóðunum.