Franskir rannsakendur segja að þeir útiloki ekki að mögulega hafi maðurinn, sem stakk einn til bana og særði tvo til viðbótar í úthverfi Parísar í gærkvöldi, haft tengsl við hryðjuverkahópa. Lögregla skaut manninn til bana.
Samkvæmt frétt Reuters hafði maðurinn verið á geðsjúkrahúsi fyrir nokkrum mánuðum og var enn í meðferð vegna veikinda sinna.
„Hryðjuverk er ekki hægt að útiloka bara af því að einstaklingurinn átti við andleg vandamál að stríða, en rannsókn okkar er enn í gangi,“ sagði saksóknari á blaðamannafundi vegna málsins í dag.
Árásarmaðurinn fæddist árið 1997 skammt norðaustan við frönsku höfuðborgina og hefur verið nafngreindur sem Nathan C. af frönsku lögreglunni.
Ekkert bendir til á þessu stigi að hann hafi orðið fyrir áhrifum af róttækum íslamistum, að sögn talsmanns lögreglunnar.