Ástralar vilja grínista sem forsætisráðherra

Grínistinn Celeste Barber er ákaflega vinsæl á samfélagsmiðlum.
Grínistinn Celeste Barber er ákaflega vinsæl á samfélagsmiðlum. Ljósmynd/Instagram

Fjöldi Ástrala hefur nú látið í ljós þá skoðun sína að ástralski grínistinn Celeste Barber ætti að verða næsti forsætisráðherra landsins. Ástæðan er sú að Barber safnaði rúmlega 25 milljónum ástralskra dala vegna gróðureldanna þarlendis á aðeins þremur dögum. Ástralska fréttasíðan News greinir frá þessu.

Söfnunarféð nemur rúmum tveimur milljörðum íslenskra króna. Barber setti af stað fjáröflun síðasta föstudag og síðdegis hafði hún safnað gríðarlegu fé, bæði frá Áströlum og erlendum aðilum. 

Gróðureldarnir sem hófust á síðasta ári hafa færst enn frekar í aukana á síðustu vikum og hafa um sex milljónir hektara brunnið og tæplega tuttugu manns týnt lífi. Þá hefur hálfur milljarður dýra drepist og fjöldi fólks misst heimili sín. 

Á sunnudagskvöld deildi Barber myndbandi af tengdamóður sinni Joy Robin eftir að þeim var sagt að rýma svæðið. Það má sjá hér.

View this post on Instagram

At the Eden Wharf after being told to evacuate. Proud of you mum.

A post shared by Hothusband (@hothusband_) on Jan 5, 2020 at 1:39am PST

Í myndbandinu segir Robin yfirvöldum í Ástralíu til syndanna og í kjölfarið fékk söfnun Barber enn meiri athygli og myllumerkið #celesteforPM, eða Celeste sem forsætisráðherra, fór af stað á samfélagsmiðlinum Twitter. 

Ástralski leikarinn Socratis Otto sagði til að mynda að hann myndi styðja framboð Barber og sömuleiðis lét leikkonan Nicole da Silva þá skoðun sína í ljós.

Rebecca Lee benti á að Barber hefði nú þegar nánast safnað meiri peningum en ríkisstjórnin hefði lagt til í baráttunni við gróðureldana, margir tóku í sama streng og sögðu að Barber hefði í raun gert meira fyrir áströlsku þjóðina en núverandi forsætisráðherra landsins, Scott Morrison. 

Aðrir segja Barber nú þegar vera forsætisráðherra landsins, þótt það sé ekki opinbert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert